131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:11]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér eiga sér stað gagnlegar umræður um þetta mál. Ég sakna þess þó að menn komi nær kjarna þess máls sem hér er til umfjöllunar.

Þetta frumvarp er fyrst og fremst lagt fram til að jafna ákveðinn aðstöðumun, aðstöðumun á milli annars vegar þeirra sem bjóða fram matvöru og hins vegar þeirra sem vilja kaupa þessa tilteknu matvöru. Þetta frumvarp snýr eingöngu að þeim aðilum sem eru í verslunarrekstri með matvöru og nánar tiltekin skilyrði í þessu frumvarpi þrengja það þannig að það tekur eingöngu til þeirra sem eru með tvo þriðju hluta veltu sinnar í matvöru og eru með verslunarrými sem er undir 600 fermetrum.

Staðan er nefnilega þannig í dag að víða um land þar sem eru þjónustumiðstöðvar fer fram sala á matvörum og þar geta menn sótt í matvæli vegna þess að á sama stað er boðin fram þjónusta sem hefur leyfi til að hafa opið þessa tilteknu daga. Til að mynda eru bensínstöðvar reknar undir sama þaki og þar með er hægt að hafa opið, og undir sama rekstri geta menn síðan sótt matvöru og selt. Vegna þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað í þessum efnum hefur orðið til ákveðinn aðstöðumunur, aðstöðumunur annars vegar þeirra sem geta á grundvelli þessara þjónustumiðstöðva sem hafa byggst upp víða um landið selt matvöru á þessum helgidögum og hins vegar þeirra sem vilja sækja sér matvöru þessa tilteknu daga. Þeir sem eru í þéttbýlinu eiga t.d. ekki sömu möguleika á að sækja sér matvöruna vegna þess að sambærilegir þjónustukjarnar eru ekki til staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Í þeirri umræðu sem hér fer fram koma menn ekkert við þennan aðstöðumun. Kjarninn í þessu frumvarpi er að jafna hann. Eins og fjallað er um í frumvarpinu er hægt að gera það með þrennu móti. Það er í fyrsta lagi hægt að fara þá leið að banna hreinlega sölu matvöru á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Það væri ein leið til að koma jafnvægi aftur á þennan aðstöðumun sem ég er að fjalla um.

Önnur leið sem nefnd er í frumvarpinu væri að segja: Gott og vel, við skulum heimila alla verslunarstarfsemi á þessum dögum. Þar með væri útrýmt öllum aðstöðumun milli landsbyggðar og þéttbýliskjarnanna og þeirra aðila sem vilja bjóða fram þjónustu og kaupa matvöruna þessa daga.

Þriðja leiðin, og það er leiðin sem valin er í þessu frumvarpi, er sú að heimila verslunum sem uppfylla tiltekin skilyrði að selja matvöru án tillits til þess hvar þær eru á landinu. Í frumvarpinu er eingöngu verið að rýmka skilyrðin þannig að aðstaðan á milli þeirra sem vilja kaupa eða selja matvöru sé sambærileg hvar á landinu sem þeir eru. Ég ítreka það sem fram kemur í frumvarpinu og nefndarmenn voru allir sammála um að væri afar mikilvægt og það er að ekki er verið að draga úr helgi hvítasunnudags eða setja hann í 2. flokk samkvæmt helgidagalöggjöfinni. Á engan hátt er verið að gera lítið úr helgi þeirra daga sem hér er fjallað um enda hefur kirkjuþing fjallað um frumvarpið og ekki gert neinar athugasemdir við það.

Þegar menn ræða frumvarpið sakna ég þess að menn taki þá til umfjöllunar þann aðstöðumun sem er milli þeirra sem bjóða fram þjónustuna, þ.e. matvöru úti á landsbyggðinni, og hinna sem ekki geta gert það hérna í þéttbýlinu og síðan hins vegar það vandamál sem vaknar við það að ferðamenn geta sótt sér tiltekna þjónustu af þessum sökum úti á landi en eiga erfiðara með að gera það í þéttbýliskjörnunum.

Hvernig vilja menn bregðast við þessu? Þetta frumvarp er svar við þeirri spurningu. Ef menn hafa einhver önnur svör ættu þau að koma fram í umræðunni en mér finnst umræðan sem hér fer fram benda til þess að mönnum sé alveg sama um þennan aðstöðumun og hafi ekkert við hann að athuga, þyki bara fullkomlega eðlilegt að menn geti keypt sér mjólk og brauð í þjónustukjörnunum úti á landi en eigi á sama tíma mjög erfitt með að gera það í þéttbýlinu. Að menn geti boðið fram ákveðnar vörur, í þessu tilviki matvöruna, vegna þess að þeir eru með bensínstöð undir sama þaki á landsbyggðinni, en þeir sem hafa sömu vöruna í hillunum hjá sér í bænum geti ekki gert það vegna þess að þeir eru ekki með aðra starfsemi undir sínu þaki sem tiltekin er í lögum. Þetta er vandamálið sem er til staðar og þetta er vandamálið sem frumvarpið er að reyna að taka á.

Ég virði það að menn hafi ólík sjónarmið í þessu en mér finnst að umræðan hafi ekki komið beint að þessum kjarna málsins. Af þeim þremur leiðum sem nefndar eru í frumvarpinu sem eru tækar til að taka á málinu heyrist mér til að mynda á hv. þingmönnum Vinstri grænna að þeir vilji ef til vill fara fyrstu leiðina, þ.e. bara banna alla þjónustu á þessum dögum. Ef ekki, hvert er þá svarið við þeim aðstöðumun sem lögin skapa eins og þau eru í dag vegna þess hvernig þjónustan hefur verið að þróast á undanförnum árum?

Auðvitað verð ég að lýsa mig fullkomlega ósammála því sem hv. þm. Þuríður Backman hefur komið að í umræðunni, að það hafi verið mikil afturför að heimila verslun með matvörur um helgar, í raun og veru ættu fjölskyldurnar að klára matarinnkaup sín áður en kæmi að helginni og þetta hafi í sjálfu sér allt saman verið óþarfi. Þessu verð ég að lýsa mig mjög ósammála. Ég tel að þetta sé skynsamlegt skref, þetta er hógvært skref, vel rökstutt og nauðsynlegt til að jafna þann aðstöðumun sem við höfum séð og ágætlega hefur verið lýst í frumvarpinu.