131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:20]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli hv. þm. Þuríðar Backman kom fram að hún teldi að þeirri þjónustu sem hér er verið að fjalla um væri ágætlega sinnt á bensínstöðvunum. Ég get ekki tekið undir það að öllu leyti. Ég sótti sjálfur þjónustu um páskahelgina úti á landi og sú þjónusta sem ég fékk þar var mun umfangsmeiri og betri en almennt tíðkast á bensínstöðvunum á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu felast auðvitað ákveðin öfugmæli. Með því að benda á bensínstöðvarnar sem dæmi um þá staði sem veita þjónustuna er í raun verið að segja: Já, það er gott að hægt er að sækja matvöruna á þessum stöðum. Viljum við marka hina pólitísku stefnu þannig að beina mönnum inn á bensínstöðvarnar? Er það þangað sem við viljum að menn sæki þjónustuna?

Mér finnst öfugmælin birtast í því að menn segja að ekki sé þörf á þessu en um leið lýsa þeir yfir ánægju sinni eða benda á staðina þar sem þó er hægt að sækja þjónustuna. Einhver pólitísk stefnumörkun verður að vera í þessu og við getum ekki verið með þau skilaboð til þeirra sem bjóða fram matvöruna að þeir þurfi að vera með rekstrarleyfi fyrir bensínstöð til að geta komið matvöru sinni á framfæri. Það er verið að reyna að jafna þennan aðstöðumun, bæði innan þéttbýlisins og eins líka milli landsbyggðarinnar og þéttbýliskjarnanna.

Sú leið sem frumvarpið gengur út frá er sú að miða við 600 fermetra og að meginhluti veltunnar, þ.e. tveir þriðju, sé í matvöru, drykkjarvöru og tóbaki. Ég held að það sé hófleg leið. Aðrar þjóðir hafa valið að setja þrengri skilyrði, til að mynda í Noregi hygg ég að það séu 100 fermetrar eins og kemur fram í frumvarpinu en það væri að mínu áliti of langt gengið.