131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:32]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem mér finnst athyglisvert við þetta mál er að farið var vel og rækilega yfir það í allsherjarnefnd og eftir að rök og umsagnir allra sem kallaðir voru fyrir nefndina höfðu verið vegin og metin komust fulltrúar allra stjórnmálaflokka í hv. allsherjarnefnd að þeirri niðurstöðu að rétt væri að haga málum eins og nefndarálitið og frumvarpið gera ráð fyrir nema fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þeir eru eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur lýst yfir andstöðu við málið og það vekur náttúrlega furðu.

Ég gat hvorki heyrt á máli hv. þm. Þuríðar Backman né hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að þessir hv. þingmenn teldu nauðsynlegt að gera breytingar á fyrirkomulaginu eins og það er núna, þ.e. að heimila olíufélögunum að stunda þá starfsemi sem starfrækt er um þessar mundir þessa tilteknu frídaga, þ.e. að leyfa starfsmönnum olíufélaganna að afgreiða mjólk, ost, brauð og aðrar nauðsynjar. Maður skilur ekki ef menn taka þá prinsippafstöðu, eins og fram kom í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að það sé rétt að standa vörð um réttindi verslunarmanna, af hverju í ósköpunum þessir hv. þingmenn vilja ekki standa sama vörð um réttindi þeirra sem afgreiða sömu vörurnar en eru starfsmenn olíufélaga. Það er dálítið sérstakt að þessir hv. þingmenn vilji að olíufélögin af öllum sitji ein að kjötkötlunum þegar kemur að verslun þessa tilteknu daga. Ég hefði talið miklu hreinlegra hjá hv. þingmönnum að berjast þá fyrir því að það væri algerlega lokað þessa tilteknu daga, þannig að menn gætu ekki stundað þá verslun og þjónustu sem hér er lagt til að heimiluð verði.