131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:41]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lausnin á þessu máli er fólgin í umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Verslunarmannafélag Reykjavíkur óskar eftir því að þær athugasemdir sem þeir eru með við málið verði teknar upp og að nefndin sem í raun og veru semur þetta frumvarp verði kölluð aftur saman og ræði við verslunarmenn og Verslunarmannafélagið um athugasemdirnar þannig að hægt sé að endurskoða breytingartillögurnar með samþykki verslunarfólks eða út frá þeim sjónarmiðum sem verslunarfólk vill standa vörð um. Mér finnst það mjög skynsamleg leið. Verslunarmenn hafa ekki verið hafðir nægilega vel með í ráðum. Það virðist vera að þeir hafi aðrar hugmyndir og hafa mögulega einhverjar lausnir þarna sem við höfum ekki komið auga á. Hér er því einhver skortur á samvinnu sem gerir það að verkum að við erum að fara fram með breytingu sem er í hróplegu ósamræmi við vilja stéttarinnar sem kemur til með að þurfa að vinna þessi störf.