131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:44]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Verslunarmenn starfa undir verulega miklu vinnuálagi nú um stundir. Það álag er m.a. komið til vegna lagabreytinga sem gerðar hafa verið í tímans rás. Ég held að það væri vel þess virði í þessari umræðu að kannað yrði það vinnuálag sem stéttin þarf að þola og sú aukning sem orðið hefur á vinnuálagi stéttarinnar á síðasta áratug. Ég held að það væri mjög hollt í þessu sambandi að ræða vinnuálag stéttarinnar í heild.

Við vitum öll að málefni fjölskyldunnar eru í brennidepli. Ég geri ráð fyrir að þessi málefni komi til með að koma inn á borð nefndar á vegum forsætisráðherra sem er að störfum núna um málefni fjölskyldunnar og þá kemur kannski til með að verða enn ljósari sú röksemd sem verslunarmenn tíunda hér því þetta er ekki bara prinsippmál hjá þeim. Röksemdin er sú að teknir verði af þeim þeir þrír lögvörðu frídagar sem þeir eiga í dag. Þeir hafa greinilega ástæðu til að ætla að ekki verði hægt að semja um þetta við verslunareigendur. Ótti þeirra felst í því að rétturinn til þessara þriggja lögvörðu frídaga verði tekinn af þeim. Ég held að í ljósi þessarar umræðu sé tilefni til að skoða vinnuálag á stéttinni í heild og vinnuálag almennt á íslenskum fjölskyldum. Þetta er auðvitað angi af því stóra máli.