131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:17]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að þetta mál skipti ekki máli. Ég held einmitt að mjög brýnt sé að taka á aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdarvalds með því að ráðherrarnir séu ekki hér að greiða atkvæði og hafa áhrif á þingið með þeim hætti. Þeir hafa líka áhrif í þingflokkunum þó það sé auðvitað önnur saga hvort þingflokkar vilji hafa ráðherrana þar til borðs alla daga eða ekki og sjálfstæð ákvörðun. Ég deili hins vegar þeirri skoðun með hv. þingmanni að ýmislegt annað getur eflt þingið og veikt ráðherraræðið sem hér var talið fram. Það er alveg rétt. Þetta frumvarp er eitt af því. Ég tel það mjög mikilvægt og það hefur sýnt sig að það hefur gengið afar vel í öðrum ríkjum eins og í Noregi og Svíþjóð.

Það er rétt að þetta kostar fé. Þetta eru útgjöld, nema menn fækki þingmönnum á móti sem ég hef efasemdir um, eins og fram kom í ræðu minni. Ef þingmönnum verður ekki fækkað þá verða aukin útgjöld. Útgjöldin yrðu ekki bara vegna varamannanna sem kæmu inn heldur fælust líka auðvitað útgjöld í þeirri leið sem ég var að stinga upp á að yrði skoðuð um að stjórnarandstaðan yrði styrkt sérstaklega til móts við það að hér komi inn varamenn frá stjórnarflokkunum. Það er alveg rétt að þetta eru útgjöld.

Ég held bara að málið sé svo mikilvægt að þó þetta kosti útgjöld þá sé brýnt að fara í þennan aðskilnað. Ég tel það vera mjög brýnt. Eins og hv. þingmaður kom á framfæri þá er þetta líka stefna Samfylkingarinnar, stefna sem Framsóknarflokkurinn deilir með Samfylkingunni þó einhverjir hjá okkur séu ekki sammála því eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir.