131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:21]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það yrðu nú ekki 46 frá stjórnarliðinu í salnum. Það er bara alls ekki þannig af því ráðherrarnir væru ekki í salnum. Þeir væru ekki hluti af þingheimi. (JóhS: Þeir eiga að svara fyrirspurnum og taka þátt í ...) Já, já, þeir kæmu hingað til þess að láta þingheim yfirheyra sig og spyrja sig út í atriði til sjá hvað þeir væru að gera og veita þeim aðhald og eftirlit. En þeir væru ekki hluti af löggjafarsamkomunni og væru ekki hér að greiða atkvæði. Ég tel því að umtalsvert mundi draga úr ráðherravaldi við þessa breytingu. En auðvitað geta önnur atriði líka komið til greina og eitt útilokar ekki annað í því sambandi.

Ég vil ekki taka undir það að Framsóknarflokkurinn sérstaklega sé í einhverjum vandræðum hérna út af því að við séum með marga ráðherra. En ég tel að álagið sé mjög mikið á þingmönnum okkar vegna þessarar stöðu og álag er reyndar mjög mikið á þingmönnum almennt þó í flokkum þeirra sé enginn ráðherra. Það er einmitt það sem ég átti við, að ráðherrarnir eru óvirkir í þeim hluta þingstarfa sem skapa eitt mesta álagið, þ.e. í nefndunum.

Virðulegur forseti. Ég tel mjög brýnt að tækifærið verði notað núna þegar við endurskoðum stjórnarskrána. Það er nú ekki gert á hverjum degi að endurskoða hana. Núna er lag til að breyta þessu. Við höfum alltaf hælt okkur af því Íslendingar að hér sé vagga lýðræðis og svo mikið lýðræði og svo mikil hefð fyrir því. Núna eigum við að standa undir nafni og skilja á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, taka atkvæðisréttinn af ráðherrunum í þinginu og minnka þannig afskipti þeirra af þingstörfum á þann hátt sem unnt er.