131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:23]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að hreyfa þessu máli enn og aftur. Ég hef ævinlega verið skotinn í þessari hugmynd. Hún er að sönnu ekki ný af nálinni. Mig rekur minni til þess að ein tuttugu ár ef ekki lengra aftur í tímann var þessari hugmynd sem hluti af stærri stjórnkerfisbreytingu hreyft í röðum okkar alþýðuflokksmanna og tilgangurinn var sá hinn sami og tilgangur flutningsmanns, að skýra línur og gera glöggan greinarmun á þrískiptingu ríkisvaldsins.

Það var einkar athyglisvert að heyra hv. þingmann lýsa eigin reynslu af ráðherrastörfum í ein rúm sex ár ef ég man rétt, hvernig þetta ráðherraræði í ríkisstjórninni virkaði. Það er auðvitað ekkert skrifað inn í stjórnarskrá. Það er langur vegur frá og segir þetta meira en mörg orð um það ástand sem fer snarversnandi í samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, hvernig núverandi ríkisstjórn sem hefur setið í tíu ár hefur stig af stigi gengið á rétt þingsins. Því miður er það að þannig að þrátt fyrir góðar tilraunir hv. þingmanns nú og áður en hún varð ráðherra þá sé ég engan stóran mun á starfsháttum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem umhverfisráðherra og annarra ráðherra í þeirri ríkisstjórn. Hún virtist falla vel inn í það plan allt saman og þar á meðal má nefna viðveru hæstvirtra ráðherra sem hefur farið snarversnandi ár frá ári.

Mig langaði fyrst og síðast að spyrja hv. þingmann — hún kom raunar ærlega inn á það — hvort hún hafi ekki alvarlega hugsað um það sjálf að iðka það sem hún boðar og segja af sér þingmennsku í upphafi árs eða um mitt ár 1999 þegar hún tók við ráðherradómi. Mannsbragur hefði verið á því. Ég er sannfærður um að talsverð dómínóáhrif hefðu orðið þar af og þrýstingur á aðra ráðherra að gera slíkt hið sama. Það hefði verið mannsbragur á því.