131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:27]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram að ég er ekki að gagnrýna hv. þingmann sérstaklega fyrir það að hún hafi sem ráðherra hagað sér verr eða betur en aðrir ráðherrar. En tilhneigingin er þessi. Þróunin er sú að ráðherraræði er að vaxa og virðing ráðherrana fyrir þinginu hefur farið minnkandi. Um það er engum blöðum að fletta.

Ég átti svo sem von á þessu svari hv. þingmanns við minni beinu spurningu þess efnis hvort hún hafi ekki hugleitt það alvarlega að iðka það sem hún boðar og segja af sér ráðherradómi. Hún svarar því til sem oft hefur heyrst, að það sé engin trygging fyrir viðkomandi einstakling að geta snúið til baka ef svo illa færi að viðkomandi ríkisstjórn mundi falla og önnur tæki við. Hver er nú sú hætta? (Gripið fram í.) Já, ég ætla nú að koma að því á eftir. Hver er sú hætta? Mér telst til að ég geti a.m.k. farið aftur til 1950 eða þar um bil og það hefur einu sinni gerst — það var 1988 — að ríkisstjórn hætti á miðju kjörtímabili og önnur tók við, án kosninga. Það gerðist einu sinni á 50 ára tímabili. Hættan andar því ekki niður um hálsmálið á manni, ekki beinlínis.

Hvað varðar sérstöðu hv. þingmanns, það sem gerðist í upphafi þessa kjörtímabils þegar það óvenjulega gerðist í þessari núverandi ríkisstjórn að innáskipti og útafskipti voru svo hröð og ör að enginn áttaði sig á einu eða neinu og það var þessi inn og annar út, þá er það líka mjög abnormalt. Ég minnist þess ekki í seinni tíð í íslenskri pólitík að það hafi gerst. Það breytir ekki því að eftir sem áður er auðvitað alltaf mestur mannsbragur á því að menn iðki það sem þeir boða.

Ég vil hins vegar undirstrika að ég er spenntur fyrir þessu og tel þetta geta með ýmsum öðrum breytingum fallið að því að efla þrígreiningu ríkisvaldsins. Ég vil skjóta því inn hér að til er líka millileið í málinu og beinlínis í texta hv. þingmanns sem gerðir þetta valkvætt, þ.e. ef það stæði einfaldlega: Víki þingmaður sæti meðan hann gegnir ráðherrastörfum skal varamaður taka sæti á meðan.