131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:59]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það fór eins og mig átti kannski að gruna að maður á ekki að taka þátt í umræðum nema hafa hlustað á þær sjálfur. Ég vil samt þakka hv. þingmanni fyrir að endursegja mér þennan þátt í umræðunni því ég tel að hann skipti máli og þegar þetta verður gert verði jafnframt að finna leiðir til að styrkja stjórnarandstöðuna og þingið sjálft sem gæti auðvitað farið fram samhliða þeim breytingum sem eru nauðsynlegar á þingsköpum og á öðru háttalagi þingsins og hefur mjög sýnt sig undanfarin ár að þarf að gera. Þá er fyrst og fremst verið að tala um að möguleikar þingmanna séu auknir til þess að sinna störfum sínum. Maður finnur fyrir því sérstaklega sem nýliði á þinginu sem þarf að setja sig inn í mörg mál og ná einhverjum tökum á málasviði sínu, að til þess eru möguleikar af nokkuð skornum skammti og það væri gott að geta fengið einhverja aðstoð við það t.d. með aukinni sérfræðivinnu eða almennum pólitískum starfskrafti sem væri til ráðstöfunar umfram það sem nú er. Það yrði þá að vera á þingsins vegum því stjórnmálaflokkarnir eru nokkuð grimmir með að taka slíkan stuðning beint til sín og nota hann í sína þágu sem stjórnmálaflokka, en kannski ekki sem þingmanna, svo maður fari nú að opna hér hug sinn um málefni sem ekki ber oft á góma.