131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[13:35]

Jón Gunnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér á að fara að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Á 125. löggjafarþingi, á árunum 1999–2000, samþykkti Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum tillögu til þingsályktunar sem flutt var af sjávarútvegsnefnd í heild sinni um varðveislu báta og skipa. Með þingsályktunartillögunni var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í.

Í ljósi þess hve Alþingi hefur með skýrum hætti látið í ljós vilja sinn til að ráðstafa a.m.k. hluta af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til þessara verkefna telur minni hluti sjávarútvegsnefndar einsýnt að Alþingi hrindi þeim vilja sínum í framkvæmd við afgreiðslu frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar. Það er að okkar áliti ámælisvert hvernig ríkisstjórnin hefur með aðgerðaleysi sínu frá því að framangreind þingsályktunartillaga var samþykkt kosið að virða vilja Alþingis að vettugi í málinu.

Framlagning frumvarpsins nú er enn fremur staðfesting á því að aldrei hefur staðið til af hálfu ríkisstjórnar eða hæstv. sjávarútvegsráðherra að virða vilja Alþingis í málinu. Ekki tókst í 2. umr. að eiga orðastað við hæstv. sjávarútvegsráðherra um þetta atriði vegna þess að hann var ekki viðstaddur þá umræðu.

Hvað sem því líður liggur nú beint við að Alþingi árétti og staðfesti vilja sinn með skýrum og skuldbindandi hætti. Minni hlutinn gerir það að tillögu sinni að hluti af eigum þróunarsjóðsins renni til varðveislu gamalla skipa og báta. Það liggur ekki fyrir á þessari stundu hversu miklir fjármunir muni standa eftir þegar sjóðurinn verður gerður upp en í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið kom fram að áætlað markaðsvirði eigna þróunarsjóðs sé milli 300 og 400 millj. kr. Nú er hins vegar talið að markaðsvirðið geti orðið nokkru hærra eða allt að 500–600 millj. kr. vegna þess að ýmis ytri skilyrði hafa breyst.

Minni hluti sjávarútvegsnefndar hefur lagt fram breytingartillögu sem gerir ráð fyrir að vilji Alþingis verði virtur. 400 millj. kr. af virði þróunarsjóðsins renni til hafrannsókna en það sem eftir standi renni í það verkefni sem Alþingi hefur samþykkt, að þeir fjármunir renni til þess að varðveita gömul skip og gamla báta. Í ljósi þess að ekki hefur tekist að mínu viti að ræða þetta að fullu við hæstv. ráðherra eða í sjávarútvegsnefnd köllum við flutningsmenn þeirrar breytingartillögu sem um ræðir hana aftur til 3. umr. og treystum því að hæstv. ráðherra verði viðstaddur þá umræðu þannig að við getum átt um þetta orðastað. Ég minni á að 49 þingmenn greiddu þessari þingsályktunartillögu atkvæði sitt, 34 af þeim sitja enn þá á þingi eða meiri hluti Alþingis, þannig að þeir þurfa að breyta afstöðu sinni ef samþykkja á frumvarpið eins og það liggur fyrir núna óbreytt.