131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[13:38]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (ber af sér sakir):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur borið á mig tvennar ásakanir í umræðu um atkvæðagreiðsluna. Annars vegar þá að ég hafi ekkert gert í því að sinna þingsályktunartillögunni. Það vill hins vegar þannig til að þingsályktunartillögunni var vísað til hæstv. menntamálaráðherra, ekki til sjávarútvegsráðherra. Það er því ekki á starfssviði sjávarútvegsráðherra að sinna málinu enda er varðveisla gamalla skipa ekki á verksviði sjávarútvegsráðuneytisins.

Í öðru lagi bar hv. þingmaður á mig þær sakir að hann hefði ekki getað rætt þessi mál við mig við umræðu í þinginu, en við 1. umr. var einmitt umræða um hvernig ætti að ráðstafa þessu. Þar svaraði ég þeim spurningum sem fram komu um þetta atriði og kom sjónarmiðum mínum á framfæri. Þar kom m.a. fram hjá mér að ég var mjög hissa á málflutningi margra þingmanna sem hafa lagt á það gríðarlega mikla áherslu í umræðu á síðustu missirum á Alþingi hvað bæta þyrfti miklum fjármunum til hafrannsókna ef þeir vildu núna klípa af þeim fjármunum sem núgildandi lög segja til um að eigi að renna til hafrannsókna. Þá verð ég að segja eins og er, herra forseti, að þá er um tvískinnung að ræða, tvískinnung þeirra sem hafa haldið því fram (Gripið fram í.) á hv. Alþingi að þeir vilji auka … (Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna hæstv. ráðherra á að fara ekki mikið út í efnislega umræðu um málið þegar hann er að bera af sér sakir.)

Það er sjálfsagt, herra forseti, en í ásökuninni var fólgið að ekki hefði verið hægt að ræða málið við mig og þá verð ég að svara því hér. Í umræðunum kom fram gríðarlegur tvískinnungur hjá hv. þingmönnum sem hafa talað um að auka þyrfti þá fjármuni sem (Gripið fram í.) rynnu til hafrannsókna. (Gripið fram í: Áminna hann.)