131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[13:58]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að þetta er sérstök vara og mjög dýr heimsmarkaðsvara. Ég hygg að það sem hinir 300 til 400 æðardúnsbændur séu að hugsa um sé að halda samstöðu sinni og stunda búskap sinn, hirða um æðarvarpið og hafa út úr því tekjur. Þetta skiptir landbúnaðinn miklu máli og margar jarðir í landinu. Ég hygg að kílóverð á æðardún sé eða hafi verið 71 þús. kr. Þetta skilar því verulegum arði.

Þeir tala auðvitað mjög fyrir því að þetta sé íslensk atvinnugrein frá a til ö og seld sem slík, gæðametin sem slík og að þannig nái þeir best inn á heimsmarkaðinn og séu trúverðugastir að þetta sé í þessu formi. Ég þakka þetta andsvar.