131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[13:59]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrir liggi einhver nauð, einhver þekking, einhver reynsla sem sýnir okkur að við þurfum að hafa sérlög um þessa afurð. Ég held að það yrði mjög skrýtið lagaumhverfi ef við færum að setja sérlög um hvaða afurð sem væri og segja að það mætti ekkert flytja út af henni nema hún væri fullunnin. Hvers konar umhverfi yrði það? Ég held að það yrði alveg skelfilegt. Ég get ekki með nokkru móti skilið að markaðssetning á einni vöru sé einhvern veginn öðruvísi en á annarri. Menn dæma um það sjálfir og reyna að reikna það út sjálfir hvað er þeim hagkvæmast, hvenær þeir selja og hvar þeir selja, á hvaða markaði og hvaða kostnað þeir leggja í, hvenær og á hvaða stundu. Ég held að markaðurinn geti aldrei verið öðruvísi.

Ég skil því ekki, herra forseti, til hvers við erum að þessu. Ef við ætlum að hafa einhverja löggjöf um þetta hefði ég talið að best væri að hún væri eingöngu um það ef menn vildu hafa opinbert gæðamat. Það er sjálfsagt mál að hafa það ef það er ósk framleiðendanna og rétt að löggilda slíka hæfileikamenn. En að öðru leyti á ég mjög erfitt með að skilja hvað löggjöfin á að skipta sér af þessu.