131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:03]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gaman að heyra hv. þm. Einar Odd Kristjánsson tala og segja að honum komi EES ekkert við og EES komi þetta ekkert við. En sannleikurinn er sá, eins og ég rakti í upphafsræðu minni, að það hefur fjallað um þetta mál og sent hingað athugasemdir varðandi fyrirkomulagið síðustu árin og áratugina og hefur krafist breytinga á því. Hér er orðið við þeim breytingum. Þessar breytingar eru viðbrögð vegna, hv. þingmaður, athugasemda frá ESA og málið sett í þann búning.

Fyrst og fremst telur atvinnugreinin sjálf að þetta sé henni hagkvæmara, að þannig sé staðið að málum þeirra til þess að þeir geti haldið utan um þessa atvinnugrein. Ég hygg að þeir muni skýra frá því í landbúnaðarnefnd að þeir telji að ef ekki verði staðið með þessum hætti að atvinnugreininni verði hún lítils virði.