131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:05]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Frumvarp þetta er eftir því sem mér sýnist sett fram til að bregðast við athugasemdum frá ESA. Þær eru til komnar vegna mismunandi krafna sem gerðar voru til gæðamats á æðardúni bæði fyrir innanlandsmarkað og markaði erlendis. Bornar voru brigður á að sömu kröfur væru gerðar til mismunandi markaða.

Íslenskur æðardúnn er einstök náttúruafurð. Dúnninn verður ekki til í hreiðrum kollunnar heldur reitir kollan sig niður í hreiðrin til að einangra eggin fyrir kuldanum í umhverfinu. Síðan er dúnninn hirtur og er eitthvert albesta einangrunarefni sem fyrirfinnst.

Íslenskur æðardúnn er um 70–80% af æðardúni á heimsmarkaði. Mér þykir mjög gott að í frumvarpinu sem fyrir liggur skuli gerðar ákveðnar kröfur, þ.e. gert ráð fyrir því að ákveðnar kröfur verði gerðar til matsmanna sem eiga að meta dúninn áður en til útflutnings kemur eða til markaðssetningar á Íslandi. Það hefur hugsanlega eitthvað skort á að gerðar væru nægjanlegar kröfur til þeirra og væri a.m.k. ágætt að kröfurnar yrðu samræmdar og ljósar.

Æðarbændur á Íslandi hafa fengið um það bil 50 þús. kr. fyrir kílóið af dúni á undanförnum árum. Hins vegar hafa æðardúnssængur sem saumaðar hafa verið og fylltar með íslenskum æðardúni verið seldar á Japansmarkaði fyrir 500 þús. kr. til 1 milljón kr. stykkið. Þar er um einhverja mestu verðmætaaukningu að ræða sem maður heyrir um. Það er satt að segja synd og skömm að sá virðisauki skuli ekki eiga sér stað á Íslandi en þessar sængur eru framleiddar erlendis. Eins og ég sagði áðan eru sængur þessar mest seldar í Japan en einnig er dúnninn talsvert notaður í úlpur og annan skjólfatnað.

Fyrir nokkrum árum, fyrir tíu árum nánar tiltekið, var gerð skýrsla fyrir Útflutningsráð Íslands um hugsanlega breytingu á markaðssetningu æðardúns erlendis. Þá virtust mörg ljón í veginum, eftir því sem mér er sagt, m.a. erfiðleikar í að markaðssetja fullunna vöru í Japan. Síðan þetta gerðist hefur Ísland opnað sendiráð í Japan. Það vill svo skemmtilega til að sá einstaklingur sem vann skýrsluna fyrir Útflutningsráð er einmitt starfandi hjá sendiráði Íslands í Japan. Það ber því vel í veiði, ef ég má orða það svo. Gera mætti átak í að fullvinna vöruna á Íslandi og reyna að markaðssetja hana erlendis.

Ég álít að jafnframt því sem við tökum þetta mál til umræðu, þ.e. gæðamat á æðardúni, og reynum að halda atvinnugreininni innan lands þá eigum við að stefna að því að fullvinna vöruna heima og halda virðisaukanum hér. Ég held að það sé hægt, sérstaklega með þeim breyttu aðstæðum sem ég nefndi áðan, sendiráðinu í Japan og áðurnefndum einstaklingi sem vinnur þar.

Ég vonast því til þess að við getum búið þannig um hnútana að æðarbændum og iðnrekendum sem hafa hugsanlega áhuga á að vinna með íslenskan æðardún á Íslandi bjóðist stuðningur til þeirra starfa. Ég tel að þetta sé ekki einfalt mál en til mikils að vinna eins og ég benti á í ræðu minni áðan þegar litið er til hinnar geysilegu verðmætaaukningar sem verður á æðardúninum frá því að hann fer frá bóndanum og þar til hann er kominn á markað í Japan.

Með því að færa vinnsluna meira til Íslands en verið hefur gefst væntanlega færi á að launa betur þau undirstöðustörf við æðardún á Íslandi, þ.e. hreinsunina sjálfa. Eins og er eru þau störf illa launuð. Þau þarf auðvitað að launa betur og til þess þurfum við að finna ráð.