131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:35]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið nokkuð til umræðu hér á þingi og mun nú koma fyrir hv. landbúnaðarnefnd þar sem ég á sæti. En ég hlýt að spyrja hv. síðasta ræðumann. Hann talar um mikilvægi þessarar landbúnaðarafurðar, sem svo má kalla, eða hirðingu og að þetta falli undir búrekstur. Því hlýtur eftirfarandi spurning að vakna vegna þessa lagabálks sem settur er og snýr mest að matsnefnd: Hverjir hreinsa þennan dún? Hverjir starfa við það? Eru það bændur eða er þetta aðkeypt vinna? Það hefur komið fram áður þegar landbúnaðarnefnd hefur rætt þessi mál að þessi störf væru unnin af fólki sem væri flutt til landsins. Er það rétt? Hvað segir hv. þm. Jón Bjarnason um það, svo fagmannlega sem hann talaði um þetta mál? Hvað erum við að tala þarna um mörg störf?

Hér kom fram í ræðu áðan að íslenskir æðardúnsbændur væru að fá 50 þús. kr. fyrir kílóið en það væri grátlegt að vita til þess að sængur væru seldar til Japans á verðmæti 400–500 þús. kr. Má ætla að það sé um ... Hvað? — (Gripið fram í: 500 ...) 500 þúsund til milljón. Þá hækkar heldur talan. Má ætla að kannski séu tvö til tvö og hálft kíló í sæng eða svo? (Gripið fram í: Eitt.) Eitt kíló í sæng. Hvers vegna er þá málum snúið í þennan farveg að leggja aðaláhersluna á matsmenn æðardúnsins en ekki á þetta stóra mál, að fá út úr afurðinni það mesta og besta sem hægt er? Nei, hér skal bara kerfið (Gripið fram í: Rangt.) styrkt en sölumöguleikarnir og það að fá fullt verð fyrir afurðina (Gripið fram í.) er eitthvert aukaatriði. (Landbrh.: Þú veist ekkert hvað þú ert að tala um.)