131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:39]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er náttúrlega um tvennt ólíkt að ræða. Annars vegar talaði hv. þm. Jón Bjarnason um Hampiðjuna og fleiri önnur fyrirtæki. Hins vegar er svo þetta lagafrumvarp um æðardúninn þar sem er verið að borga 50 þús. kr. fyrir kílóið unnið hér. En þegar þetta er komið í form sængur þá er verið að selja þetta á 500 þúsund til eina milljón. Svo ætla menn að fara að blanda þessu saman og ýta þeim staðreyndum frá að verið er að selja dúninn frá Íslandi á allt of lágu verði og engin markaðssetning fylgir því.

Engin markaðssetning fylgir þessu frumvarpi. Allt skal vera óbreytt áfram. Það á að efla og styrkja kerfið, efla og styrkja eftirlitskerfið og gera mönnum í raun erfiðara að komast að kjarna málsins sem er sá að styrkja þennan æðardúnsrekstur, ef svo má segja, og koma því þannig á koppinn að menn fái almennilegt verð fyrir æðardúninn. (Gripið fram í: Þetta snýst um það.)