131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:53]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir benti einmitt á það sem ég var að segja, að það eru neytendur sjálfir sem ákveða hver gæði vörunnar eigi að vera, það eru þeir sem koma með kröfurnar.

Þá spyr maður hvort ekki sé óþarfi að hafa sérstaka matsmenn. Ef sjálfur kaupandinn gerir skýrar kröfur um hvernig varan skuli vera frá seljanda, framleiðanda, æðarbændum, útflytjendum og þeim sem hreinsa dúninn, þá sé ég ekki þörf á að lögskipa sérstaka dúnmatsmenn. Menn mega ekki búa til óþarfa millilið, óþarfa kostnað í framleiðsluferlinu með þeim afleiðingum að skilaverð til bænda lækki. Ég tel það einna mikilvægast í þessu sambandi að bændur fá gott skilaverð fyrir vöru sína. Ég vil endilega sjá veg þessa atvinnuvegar sem mestan. Mér þykir hann svo skemmtilegur, spennandi og merkilegur.

Ég held að menn hljóti að verða að spyrja sig hvort við séum að flækja málin um of og hvort betra væri að leyfa greininni að blómstra eins og hún hefur gert frá örófi alda, ef svo má segja, án þess að löggjafinn geri fólki erfitt með eftirlitsiðnaði sem kann að vera alger óþarfi. Nóg er nú samt í þjóðfélaginu.