131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[15:08]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað menn vita, það verður maður auðvitað að leggja mat á en ég er búinn að hlusta á málflutning hv. þingmanns í svo mörgum málum. Hann kemur mjög einkennilega að málum og hefur gert það í hverju málinu á fætur öðru. Það er það mat sem ég legg á og met út frá. Ég efast ekki um að hv. þingmaður sé sérfróður á einhverjum sviðum og viti sínu viti en ég held að hann kjósi að koma hér alltaf upp með dylgjur og svívirðingar um Framsóknarflokkinn og framsóknarmenn og hafi numið það í föðurhúsunum hjá Sverri Hermannssyni, þar séu þær kvöldæfingar sungnar, þeir kvöldsöngvar, og finnst mér hann flytja það æðivel frá læriföðurnum. Ég ætla ekkert að láta það fara í taugarnar á mér.

Ég þakka þessa ágætu umræðu. Ég hef farið yfir það hér og kynnti mér það áður að hér er farið að öllum lögum um eftirlitsreglur. Ég bið þá hv. landbúnaðarnefnd að fara yfir það þegar málið kemur til hennar og skoða það mjög vandlega. Hér hefur hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson lýst því yfir að hann hafi áheyrnarrétt í landbúnaðarnefnd og mun þar auðvitað fylgja því eftir.

Hér er sem sé þessi sérstæða atvinnugrein sem telur hagsmunum sínum mjög mikilvægt að þessum málum verði vörðuð leið með sama hætti og verið hefur í 35 ár þó að við tökum tillit til þeirra ábendinga sem ESA gerði á sínum tíma.

Ég vil svo að lokum þakka málefnalegar umræður og bið hv. landbúnaðarnefnd að fara vel yfir þetta mál.