131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[15:11]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Það er haldið áfram, herra forseti, að segja að ég sé með svívirðingar og dónaskap í garð framsóknarmanna, Framsóknarflokksins og hæstv. ráðherra. Ég hafna því algerlega. Ég fjallaði bara í stuttu máli um slæm verk Framsóknarflokksins og það var með góðum hug þannig að flokkurinn geti sveigt af rangri braut til réttrar stefnu. Þessi stefna hefur ekki verið til hagsbóta fyrir landsbyggðina eins og sést á því að Framsóknarflokkurinn hefur t.d. gengið fram fyrir skjöldu með að svipta sjávarbændur og þar með æðarbændur útræðisrétti. Þetta er alveg hræðilegt. (Gripið fram í.) Síðan hækkar hann rafmagnsverðið á landsbyggðinni. Er dónaskapur að segja þetta, hæstv. ráðherra? (Landbrh.: … hækka tífalt.) Ég spyr, ég sé ekki að þetta sé dónaskapur. (Landbrh.: Kynntu þér málið.) Og síðan eru skorin niður framlög til refa- og minkaveiða. Ég bara minnist á stjórnarathafnir flokksins. Er það dónaskapur? (Landbrh.: Farðu rétt með hlutina.) Ég geri það. Ég fer rétt með. Því miður er þetta sorgarsaga og það sést best þegar opinberar tölur eru skoðaðar, þá sést að íbúaþróun hefur verið óhagstæð landsbyggðinni og það sem verra er, þó að hæstv. ráðherra hafi fullyrt eitthvað annað í umræðunni, eru kjör bænda lök. Því miður, og það sést bara á framtalsgögnum úr mínu góða kjördæmi, Norðvesturkjördæminu. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur einfaldlega ekki staðið sig.