131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála.

230. mál
[16:06]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála. Hér er um að ræða endurflutta þingsályktunartillögu sem ég hef nokkrum sinnum flutt áður en Alþingi aldrei séð sér fært að afgreiða hana, enda stórt, flókið og viðamikið mál á ferð. Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort færa skuli undir eitt ráðuneyti málefni lífeyrissjóða og lífeyrissparnaðar, almannatrygginga, félagslegrar framfærslu og vinnumarkaðsmála, a.m.k. það sem lýtur að atvinnuleysisbótum og málefnum atvinnulausra. Sérstaklega verði hugað að kostum þess og göllum að gera slíka breytingu á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins með hliðsjón af þörfum fyrir samræmingu á þessu sviði.“

Einu sinni sem oftar hefur orðið nokkur umræða um þörfina á endurskoðun verkaskiptingar innan Stjórnarráðsins. Því þótti mér rétt að flytja þessa litlu tillögu eina ferðina enn og leggja hana í púkkið þannig að þau sjónarmið sem hún stendur fyrir fengju að fljóta með ef Alþingi skyldi taka á sig rögg og afgreiða einhverja leiðsögn handa framkvæmdarvaldinu í þessum efnum. Það er vitanlega á hendi framkvæmdarvaldsins að hlutast til um þetta í einstökum atriðum og verkaskipting innan Stjórnarráðsins byggir á reglugerð sem forsætisráðherra setur í grunninn en að sjálfsögðu getur Alþingi haft á því þær skoðanir sem það vill og komið vilja sínum fram með lagabreytingum, tilmælum eða fyrirmælum til stjórnvalda, t.d. ef mönnum sýndist skynsamlegt að huga að þeim kosti sem hér er lagður til.

Nefna má aðrar hugmyndir sem hafa að undanförnu verið á kreiki um breytingu á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Þannig hefur Samfylkingin verið með hugmyndir og gott ef ekki þingmál um atvinnuvegaráðuneyti, að sameina þau ráðuneyti sem fara með málefni atvinnuveganna í eitt, að sameina sjávarútvegs-, landbúnaðar- og jafnvel iðnaðarráðuneyti. Eins bar það til tíðinda á landsþingi framsóknarmanna að þar var gerð ályktun um fækkun ráðuneyta, gott ef ekki allt að helmings fækkun ráðuneyta. Sú fækkun átti þó, vel að merkja, ekki að koma til framkvæmda fyrr en á næsta kjörtímabili. Glöggir menn hafa þóst sjá í því einhverja skýrustu vísbendingu sem enn hefur komið fram um að Framsóknarflokkurinn reikni ekki með því að verða í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Á þeim bæ hefur ekki farið sérstaklega mikið fyrir áhuga á að fækka ráðuneytum meðan þau eru unnvörpum skipuð framsóknarmönnum. Hins vegar hefur Framsókn mikinn hug á því að fækka ráðuneytunum á næsta kjörtímabili hvað sem lesa má út úr því.

Auðvitað mætti nefna fleiri hugmyndir um breytta verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Sá sem hér talar er ekki endilega þeirrar skoðunar að það sé raunhæft eða æskilegt markmið að stefna á stórfellda fækkun. Verkefnin sem unnin eru í ráðuneytunum í dag hverfa ekki þótt þau séu sameinuð. Ráðuneytin stækka einfaldlega og verða meira bákn og það þarf t.d. alls ekki að vera heppilegt. Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að heilbrigðisráðuneytið sé meira en nógu stórt eins og það er. Í greinargerð með þingsályktunartillögu minni um að færa almannatryggingaþáttinn frá heilbrigðisráðuneytinu eru færð tvíþætt sjálfstæð rök. Annars vegar er heilbrigðisráðuneytið mjög stórt og fyrirferðarmikið og tekur til sín geysilega stóran hluta allra opinberra fjárveitinga. Það munaði verulega um það ef almannatryggingaþátturinn væri annars staðar. Síðan má færa fyrir því ýmis rök, fagleg rök, að það sé ekki endilega heppilegt að sama ráðuneyti og fer með heilbrigðismál og rekstur hins opinbera á því sviði, mótar stefnuna og rekur opinberar heilbrigðisstofnanir, fari jafnframt með tryggingaþáttinn. Það er þá í gegnum tryggingakerfið að greiða sjálfu sér.

Kannski eru veigamestu rökin fyrir því að stokka þessi mál upp að samræma samspil lífeyristrygginga, almannatrygginga og stuðning við atvinnulausa, framfærslu sveitarfélaga, framfærslustuðning sveitarfélaga o.s.frv. Samspil allra þessara þátta hvers við annan og tekjutenging bótaliða bæði innan og utan skattkerfisins er geysilega flókið og margþætt. Þetta er í hnotskurn það sem markar t.d. stöðu og lífskjör eftirlaunafólks, þ.e. hvernig kerfin eru látin spila saman. Lífeyristryggingarnar, greiðslur til þeirra sem hafa hafið töku lífeyris úr lífeyrissjóðum annars vegar, sá grunnur sem almannatryggingakerfið býr mönnum hins vegar og svo tekjutenging bótaliða, skerðingarmörk, lífskjör tugþúsunda eftirlaunamanna á Íslandi á komandi árum og áratugum koma fyrst og fremst til með að ráðast af þessu samspili.

Þess vegna er ekki lítið í húfi, að þarna sé um skilvirka stjórnsýslu að ræða og þessir þættir samræmdir. Það stendur mönnum fyrir þrifum að málaflokkurinn er í dag dreifður á þrjú, fjögur ráðuneyti. Þetta er að hluta til málefni fjármálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, félagsmálaráðuneytisins og jafnvel fleiri aðila.

Hvað kemur þá til greina að gera? Jú, í greinargerð er vikið að því að sá möguleiki hljóti að koma til skoðunar að stofna einfaldlega tryggingamálaráðuneyti; ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála. Að sumu leyti mætti kalla það einhvers konar innanríkisráðuneyti. Hinn kosturinn væri að sameina þennan málaflokk og færa hann undir eitt af starfandi ráðuneytunum sem væntanlega væri heppilegast að yrði félagsmálaráðuneytið en ekki heilbrigðisráðuneytið af þeim rökum sem ég hef áður nefnt, að það er nú þegar nógu fyrirferðarmikið og ekki að öllu leyti heppilegt að hafa almannatryggingar þar.

Málaflokkurinn færi tæplega undir fjármálaráðuneytið, að hluta til með sömu rökum. Ætli menn hafi ekki nóg að sýsla þar á bæ og ekki endilega heppilegt að fjármálaráðuneyti sé fagráðuneyti fyrir málaflokk af þessu tagi, eins og það er að hluta til í dag þar sem lífeyristryggingar og málefni lífeyrissjóða heyra þar undir. Þá stendur eftir félagsmálaráðuneytið sem væri að mörgu leyti prýðilega sett til að taka við þessu verkefni. Það má líka nefna, ef ætlunin er að færa yfir til sveitarfélaganna viðameiri þætti á sviði velferðarþjónustu á komandi árum, að það er ekki óeðlilegt að félagsmálaráðuneytið taki jafnframt til sín stærri hluta þeirra mála. Það mundi gerast ef lífeyristryggingar og almannatryggingar færðust þangað og sameinuðust þeim málefnum sem fyrir eru hjá félagsmálaráðuneytinu, þ.e. málefnum vinnumarkaðarins, stuðningi við atvinnulausa og framfærslumálefnum sem heyra til sveitarfélaganna.

Þetta er efni þessarar litlu tillögu, frú forseti. Ég held ég þurfi ekki að eyða meiri tíma í að mæla fyrir henni. Hún er tiltölulega einföld og skýrir sig sjálf. Satt best að segja er það nokkurt undrunarefni að svo hafi vafist fyrir Alþingi að afgreiða einfalt og lítið mál af þessu tagi. Ég á erfitt með að sjá að menn geti haft svo mikið á móti því að tillaga af þessu tagi sé samþykkt. Hún felur einfaldlega í sér könnun á þessum möguleika, könnun á þessum kosti. Því er alls ekki slegið föstu fyrir fram að þetta eigi að gera og þaðan af síður hvernig. Ég held að það séu býsna veigamikil rök fyrir því að fara yfir þetta, að málið sé skoðað og þetta kannað. Það hefur margoft komið fram á fundum og ráðstefnum þar sem ég hef tekið þátt í umræðum um þessi mál á umliðnum árum, mér liggur við að segja áratugum, hve bagalegt væri að hafa þessa margskiptingu málaflokksins í Stjórnarráðinu eins og er í dag. Það stendur mönnum fyrir þrifum og háir þeim í að móta eina heildstæða, samræmda stefnu.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. Þá er vandinn að vita hvaða nefnd væri best að því komin að skoða þetta. Að mörgu leyti væri eðlilegt að allsherjarnefnd tæki það til skoðunar en það gæti auðvitað líka farið til félagsmálanefndar með vísan til þess að mögulega yrði málið vistað hjá sveitarfélögunum. Ég hygg að best sé að vísa málinu til þeirrar nefndar sem hefur fengið það til umfjöllunar á undanförnum þingum.