131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórn fiskveiða.

239. mál
[17:16]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði í ræðu minni í upphafi að einn tilgangurinn með því að setja fram frumvarp eins og þetta væri að vekja umræðu um efni þess og reyna að setja fram áleitnar spurningar um hvernig okkur hefði tekist til og hvort ástæða væri til að velta fyrir sér öðrum leiðum en við höfum farið. Í ræðu sinni sagði hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson að hann hefði skilið mig þannig að það væri eini tilgangur frumvarpsins, það er nú alls ekki.

En hv. þingmaður veit eins og ég að fyrir stjórnarandstöðuþingmenn að leggja fram frumvarp til laga á Alþingi eins og stjórnarmeirihlutinn fer með slík frumvörp sem koma frá stjórnarandstöðunni, þá gerist oft ekki mikið meira með slík frumvörp en að þau eru rædd í 1. umr. og síðan fara þau til umsagnar og þannig til umræðu í sjávarútvegsnefnd. Ég vona að vegur þessa frumvarps geti orðið með einhverjum öðrum hætti en reynslan hefur kennt mér á þeim stutta tíma sem ég hef verið á þingi og væntanlega hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni einnig að þetta vilja nú oft verða örlög þingmála sem við í stjórnarandstöðu leggjum fram.

Í gær spurði hv. þingmaður hæstv. sjávarútvegsráðherra um innfjarðarrækjustofn í Arnarfirði og hafði áhyggjur af því hvernig komið væri fyrir innfjarðarrækjustofninum þar sem hann væri orðinn samanþjappaður inni í nyrsta hluta Arnarfjarðar, ef ég tók rétt eftir, og mikið af smáfiski þar fyrir utan sem héldi rækjustofninum í herkví. Ef þetta frumvarp væri orðið að lögum mætti vega og meta þetta og heimila veiðar á þessum smáa fiski til að vernda rækjustofninn, vegna þess að hér er gert ráð fyrir að við veltum fyrir okkur áhrifum veiða á einum stofni á annan. Bara t.d. það að menn gætu velt slíku fyrir sér í svona tilvikum hlýtur að vera til bóta frá núverandi kerfi þar sem ekki má veiða fisk burt séð frá því hvernig staðan er á svæðinu.