131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Sala áfengis og tóbaks.

241. mál
[17:57]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir hlý orð í minn garð án þess að ég ætli að mynda skjallbandalag við hv. þingmann héðan úr ræðustólnum. En ég held að það sé rétt sem hann segir, að þetta mál er þess eðlis, og maður hefur fundið það, að við það er verulegur stuðningur hjá ungu fólki. Hins vegar er mjög ánægjulegt að sjá að meðal flutningsmanna frumvarpsins eru þingmenn sem hafa setið á þingi býsna lengi og hafa marga fjöruna sopið en eru ungir í anda og styðja málið. Ég hygg að þeir séu enn fleiri en fram koma á frumvarpinu.

Ég held að það sé líka alveg rétt sem hv. þingmaður veltir upp varðandi það að auðvitað viljum við flutningsmenn frumvarpsins tryggja að nægt framboð verði á góðum vörum, góðum vínum, í þeim búðum sem selja munu þessar vörur og markaðurinn verði ekki þannig að frekar verði lögð áhersla á magn en gæði. Ég spái því að verði frumvarpið að lögum þá fáum við hvort tveggja, annars vegar verslanir sem bjóða upp á tiltölulega ódýra vöru í miklu magni og hins vegar sérverslanir sem bjóða upp á meiri gæðavöru. Þetta gefur verslunum eins og t.d. Ostabúðinni uppi á Skólavörðustíg tækifæri til þess að versla í senn með gæðaosta, pylsur og fleira, ásamt gæða rauðvíni og hvítvíni. Slíkar vörur fara gjarnan saman eins og glöggt má sjá í Frakklandi, Belgíu og víðar. En ég held að verði frumvarpið að lögum þá fáum við alla þessa flóru.