131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:32]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil upplýsa það að seint í gærkvöldi óskaði ég eftir að fram færi utandagskrárumræða um málefni Ríkisútvarpsins og þá stöðu sem þar er upp komin. Af ýmsum ástæðum gat hæstv. forseti Alþingis ekki orðið við þeirri beiðni minni. Engu að síður óska ég eftir því að fá að ræða undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins um málefni og þá alvarlegu stöðu sem komin er upp innan Ríkisútvarpsins í kjölfar ráðningar fréttastjóra á fréttastofu útvarpsins. Staðan er svo alvarleg að ekki verður við það unað.

Í ljósi þess að tæplega 200 starfsmenn Ríkisútvarpsins lýstu í gær á starfsmannafundi vantrausti á störf útvarpsstjóra tel ég ástæðu til að þingmenn skiptist á skoðunum um þá alvarlegu stöðu.

Við ráðningu fréttastjórans, sem hefur verið deiluefni upp á síðkastið, hefur stofnunin orðið að þola pólitíska kúgun af því tagi sem hvergi þekkist í vestrænum lýðræðisríkjum nú til dags. Á tíma þegar viðamikil umræða fer fram um trúverðugleika fjölmiðla og nauðsyn þess að fréttastofur séu sjálfstæðar, óháðar eigendum eða öðrum hagsmunaaðilum eins og stjórnmálaöflum eða auglýsendum er ömurlegt að sjá það sem er að gerast innan Ríkisútvarpsins. Umræðan sem fram fer um gildi fjölmiðla og lýðræði hugsjónarinnar á sér ekki bara stað hér á landi. Hún á sér stað úti um allan heim.

Í ljósi þessa er hin pólitíska íhlutun í málefni fréttastofu Ríkisútvarpsins enn ósvífnari. Hún er algerlega á skjön við þær reglur sem þjóðir leggja sig fram um að ástunda. Ríkisútvarpið er almannaútvarp í þjóðareigu sem gegnir lögum samkvæmt því mikilvæga hlutverki að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þær hafa verið þverbrotnar af þeim sem fara með vald innan stofnunarinnar og það er nauðsynlegt að ná tökum á því ástandi sem nú er að skapast og sjá til þess að ekki hljótist af því óbærilegt tjón. Hverjir eiga að taka ábyrgð á þessu? Það eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem eru yfirmenn útvarpsstjóra, menntamálaráðherra og forsætisráðherra sem þurfa að láta málið taka til sín.