131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[10:54]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að forseti upplýsi okkur eitthvað um það hvenær búast megi við því að sú umræða utan dagskrár um málefni Ríkisútvarpsins sem óskað hefur verið eftir og rædd var á fundi formanna þingflokka með forseta í morgun, geti farið fram. Það er algerlega óviðunandi ástand sem upp er komið í málefnum Ríkisútvarpsins og það þolir enga bið að fá það rætt hér og að til svara verði af hálfu ríkisstjórnarinnar einhverjir þeir ráðherrar sem svarað geta fyrir málið eins og það stendur núna. Landið er væntanlega ekki menntamálaráðherralaust, þó að menntamálaráðherra feli sig í útlöndum gegnir einhver starfi hennar hér heima. Auk þess má segja að það stæði hæstv. forsætisráðherra næst að svara fyrir þessa óhæfu því að ekki er annað betur vitað en að forsætisráðherra sé forsætisráðherra í ríkisstjórninni og beri ábyrgð á málefnum hennar svona yfir höfuð.

Það er upplýst að fréttastjóri getur ekki gegnt starfi sínu. Það er þegar búið að gera ráðstafanir inni á útvarpi til þess að yfirmaður fréttasviðs gegni starfinu fyrst um sinn (Forseti hringir.) þó að fréttastjóri sé kominn til starfa.

(Forseti (GÁS): Ég bið hv. þingmann að halda sig við umræðuefnið, um fundarstjórn forseta, en ekki efnisatriði máls.)

Ég er nákvæmlega að gera það, forseti.

(Forseti (GÁS): Nei.)

Ég er að rökstyðja hvers vegna það er óhjákvæmilegt að fá þessa umræðu án tafar. Það er vegna þess að það er ófremdarástand á Ríkisútvarpinu. Það þolir ekki bið að taka það mál til umfjöllunar á Alþingi og fá við því svör frá framkvæmdarvaldinu hvað menn hyggjast gera. Við trúum því ekki að óreyndu að það sé ætlunin að hafa Ríkisútvarpið óstarfhæft og logandi stafnanna á milli. Eins og ég segi þá liggur það þegar fyrir að starfsemi útvarpsins getur ekki farið fram með eðlilegum hætti eins og í pottinn er búið. Fréttastjórinn kann ekki til verka, hann ratar varla um húsið, sölumaðurinn, og þess vegna hefur verið ákveðið að yfirmaður fréttasviðs gegni starfinu tímabundið. Áður hafði verið reynt að láta einn af umsækjendunum sem hafnað var vera fréttastjóra fyrst um sinn.

(Forseti (GÁS): Ég vil enn og aftur áminna hv. þingmann um það að hann er að ræða hér um fundarstjórn forseta en ekki ástandið á Ríkisútvarpinu.)

Já, já, ég er nákvæmlega að ræða það. Ég er að rökstyðja það að forseti þarf að láta okkur fá einhverjar upplýsingar um það hér hvenær þessi umræða getur farið fram. Getur hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. starfandi menntamálaráðherra komið hér til fundar eftir hádegið og getum við þá haft þessa umræðu? Það er þannig samkvæmt þingsköpum, virðulegi forseti, að það er ekki í valdi ráðherra að koma í veg fyrir að umræður utan dagskrár fari hér fram. Það er réttur þingmanna til þess að taka hér upp mál og það er algerlega ólíðandi ef forsetar ætla ítrekað að túlka þessi ákvæði þingskapanna svo að valdið liggi úti í bæ hjá ráðherrunum og með því að fela sig í útlöndum eða neita að mæta hér og sinna þingskyldum þá komi ráðherrarnir í veg fyrir að þingmönnum nýtist þessi réttur sinn sem er ótvíræður í þingsköpum. Það er m.a. um þetta sem ég er að ræða, virðulegur forseti, og þetta er vissulega um störf þingsins og um fundarstjórn forseta.