131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[11:00]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég er mjög undrandi á því að hv. 5. þm. Norðvest. skuli koma hér upp með þeim æsingi sem hann kom hér upp með áðan, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Hefði verið viðkunnanlegra að hann hefði rætt við fulltrúa sinn á fundi formanna þingflokka áður en hann stóð hér upp. (LB: … fundarstjórn …) Ég er sem forseti Alþingis að svara því sem hér hefur komið fram um beiðni um utandagskrárumræðu. Það er rétt hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að skemmtilegra hefði verið að þessi umræða hefði verið tekin upp undir liðnum um störf þingsins hér áðan en að þrengja henni undir umræður um fundarstjórn forseta sem ég skil að sé gert til þess að halda þessari umræðu áfram.

Á þeim fundi sem ég átti með formönnum þingflokka, og þar sat hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, kom fram í fyrsta lagi að ég hafði ekki lesið tölvupóst í gærkvöldi og af þeim sökum var mér ókunnugt um að þessi beiðni lægi fyrir. Ég benti hins vegar hv. þingmanni á að það hafi komið fyrir ef þingmönnum hefur legið á að þeir hafi hringt heim til mín og það meira að segja árla morguns ef svo hefur borið við. Í þessu tilviki var ekki talin þörf á því.

Ég vil í annan stað að það komi fram að tveir af þingflokksformönnum höfðu ekki hugmynd um að þessi beiðni hefði komið fram.

Í þriðja lagi vil ég segja þingheimi og hv. þingmanni að ég boðaði að nýju fund með formönnum þingflokka síðar í dag, klukkan 1.15, sem staðfestir að þessar upphrópanir hér, m.a. frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, voru með öllu óþarfar. Var ástæðulaust fyrir hv. þingmann að setja það á svið hér að fagna því sérstaklega að á beiðni hennar um utandagskrárumræðu væri hlustað þegar ég hafði brugðist við þegar á fundinum í morgun með formönnum þingflokka.

Það er auðvitað svo að upp hefur komið umræða um það hvort rétt sé að umræður um fundarstjórn forseta skuli hafa það mikið vægi í umræðum hér ef misnotað er það svigrúm sem þingsköp gefa til þess arna. En ég vil leggja áherslu á það vegna þess sem fram kom hér fyrr í dag að hornsteinn frjálsrar umræðu í landinu er Alþingi en ekki stofnanir úti í bæ og það er á þessum stað hér sem við skiptumst á skoðunum.

Við skulum þá líka sýna hvert öðru þann drengskap að fara rétt með og sýna sanngirni. Ég vil segja við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að ef honum liggur mikið við hefur það komið fyrir áður að hann hafi hringt í mig heim til mín (Forseti hringir.) og þarf ekki að láta einhvern annan senda mér tölvupóst.