131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[11:08]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Já, virðulegur forseti, þú ert nú búinn að árétta það nokkrum sinnum við mig. Ég tel að það hafi verið fullkomlega eðlilegt að ég færi hér upp og ræddi um fundarstjórn forseta og spyrði hæstv. forseta nánar út í það hvenær þessi umræða gæti farið fram. Forseti sá sem á stóli situr hafði ekkert tjáð sig um það og þess vegna var eðlilegt að við fengjum einhverjar upplýsingar um það mál áður en við hyrfum alveg frá umræðunni. Eins og ég sagði var ég fyrst og fremst að rökstyðja nauðsyn þess að þessi umræða gæti farið fram í dag — hún þolir ekki bið — að fá hér fulltrúa framkvæmdarvaldsins til þess að standa fyrir máli sínu í þessum efnum.

Ég get tekið undir að það er að mörgu leyti eðlilegt að við þessar aðstæður beri hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, nú ábyrgð á spunadoktorunum sem hér koma mjög við sögu, að sögn.

Það er rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að ég kann heimasímann hans og hef stundum hringt í hann. En nú var það bara ekki ég sem var umræðubeiðandi í þessu tilviki, heldur hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir. Það er líka gott að hv. þm. Halldór Blöndal átti sig á því þótt seint sé að tölvupóstur og innanhússpóstur eru að verða algengustu samskiptin hér á þingi og hafa m.a. þann kost að þar er um skrifleg og tímasett samskipti að ræða. En það er að vísu nauðsynlegt að menn lesi póstinn sinn til þess að þetta komi að gagni og kunni á tölvur, það er alveg ljóst.

Það er eins og ég segi líka, virðulegi forseti, algerlega óþolandi og það má ekki verða svo að hæstv. ráðherrar geti haft það í valdi sínu með fjarveru sinni að hindra að umræður um mikilvæg mál fari fram á þingi. Ef hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kýs að fela sig í útlöndum verður að hafa það en það á vera starfandi einhver menntamálaráðherra í landinu, ekki trúum við öðru, auk þess sem að mörgu leyti er eðlilegast að hæstv. forsætisráðherra komi þá til skjalanna.

Það er m.a. hlutverk ráðherra í svona tilvikum að tryggja starfsfrið í þeim stofnunum sem undir þá heyra. En hvað hefur gerst hér? Algerlega hið gagnstæða. Ráðherrar og ríkisstjórnarflokkarnir hafa með misbeitingu valdsins rofið grið og sett allt í uppnám í þessari mikilvægu stofnun. Þetta ber allan keim af því að verið sé að skipuleggja innrás í Ríkisútvarpið, óvinveitta yfirtöku eins og það heitir í viðskiptalífinu, þegar menn ryðjast með afli inn í fyrirtæki og leggja þau undir sig. Fjandsamleg yfirtaka, innrás, hvað eigum við að kalla þetta, herra forseti?

Eitt er víst og það er að svona getur þetta ekki gengið áfram. Menntamálaráðherra og ríkisstjórnin bera hér höfuðábyrgð, útvarpsstjóri er trausti rúinn og verður auðvitað að víkja ef hann sér ekki að sér, það er deginum ljósara, og það þolir ekki bið að fá niðurstöðu í þetta mál.