131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[11:11]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í þessum umræðum um fundarstjórn forseta er vert að vekja athygli á því að forseti Alþingis, sá sem kjörinn var til þeirra starfa, kom í stólinn áðan þeirra eðlilegu erinda að ræða þátttöku sína í þeim málum sem hér er verið að ræða. En hann lét það ekki nægja heldur hafði honum ekki geðjast að stíl eða sniði þeirrar umræðu sem hér fór fram um fundarstjórn forseta og greip þess vegna til þess að hóta því að hann mundi beita sér fyrir breytingum á því umræðuformi sem við erum hér í. Í sömu ræðu, og ég held í næstu setningu, tók hann hins vegar fram að Alþingi væri grunnsteinn lýðræðislegrar umræðu á Íslandi.

Skyldi það vera svo, forseti, — og nú er sá sem kjörinn var forseti Alþingis genginn úr salnum sem hans er vandi þegar hann er búinn að taka þátt í umræðum fyrir sitt leyti — að þau mál sem hér eru tvenn í gangi séu af sömu rót? Að sá lýðræðisskilningur forseta Alþingis sem birtist í því að þegar menn taka til máls á þann hátt sem honum geðjast ekki að þykir honum eðlilegt í grunnsteini lýðræðislegrar umræðu á Íslandi að afnema það umræðuform þar sem menn hafa tjáð sig, að það hangi svo saman við það að menn vilji hafa þá fréttastjóra á fréttastofu útvarps sem geta ráðið þeirri umræðu sem þar er, þeim fréttum sem þar eru, þannig að mönnum geðjist betur að þeim, Halldóri Blöndal, hv. þingmanni og núverandi forseta Alþingis, og félögum hans í ríkisstjórninni og þeim sem hafa þann lýðræðisskilning til að bera sem raun ber vitni? Að þeir séu hér að taka fréttastofuna og leggja hana undir sig á svipaðan hátt og Halldór Blöndal, hv. þingmaður, hefur hvað eftir annað misnotað vald sitt hér á Alþingi?