131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[11:13]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal gefur mér tilefni til að koma hingað aftur og segja fullum fetum að ég sækist ekki eftir því að etja kappi við hæstv. forseta eða efna til illdeilna við forseta eða hv. þm. Halldór Blöndal. Það gerði ég ekki á þingflokksformannafundinum í morgun, það fór vel á með okkur. Ég sýndi því skilning að hv. þingmaður, hæstv. forseti, hafði ekki lesið tölvupóstinn sinn en ég vildi í máli mínu hér áðan ítreka það að þingskapalög gera ráð fyrir því að hér sé hægt að koma á fyrirvaralausum umræðum. Ég þakkaði hæstv. forseta fyrir það að hann hafði sýnt því sjónarmiði mínu skilning.

Ég lít enn svo á að þessi beiðni mín sé opin og að hæstv. forseti Halldór Blöndal hafi líka tekið vel í það að hugleiða að hún gæti farið fram síðar í dag vegna þess að hann ákvað að efna til nýs fundar með þingflokksformönnum klukkan korter yfir eitt. Ég sé því ekki að hér þurfi að munnhöggvast meira um þetta mál. Ég lít svo á að þessi beiðni sé vakandi, allir þingmenn og þingflokksformenn vita af henni og það er nauðsynlegt að þessi beiðni verði formlega tekin fyrir á þeim fundi sem til stendur klukkan korter yfir eitt. Þar af leiðandi lít ég svo á að þessi umræða, með viðstöddum ráðherra eða ráðherrum, geti farið fram hér í eftirmiðdaginn í dag.

Þau ummæli hv. þm. Halldórs Blöndals sem hann lét falla áðan, að þessi stóll hér væri hornsteinn lýðræðislegrar umræðu í landinu, vil ég taka undir. Það er auðvitað rétt. En það er annar hornsteinn þessarar lýðræðislegu umræðu. Hann höfum við, alþingismenn, löggjafinn, þjóðkjörnir fulltrúar, ákveðið með lögum að sé einn af hornsteinum lýðræðislegrar umræðu. Sá hornsteinn er fréttastofa Ríkisútvarpsins, og það er fréttastofa Ríkisútvarpsins sem núna situr undir árás frá valdasjúkum stjórnvöldum. Það er ekki hægt að láta það viðgangast. Um það verður að vera hægt að taka öfluga málefnalega umræðu við þá sem hana eiga að taka, ráðherra í ríkisstjórn Íslands.