131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Fjárhagslegar tryggingaráðstafanir.

667. mál
[11:31]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra fór yfir efni frumvarpsins sem hér liggur fyrir, sem fjallar um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir og er byggt á tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Markmið tilskipunarinnar er að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og stöðugleika fjármálakerfisins og efla þannig frelsi í þjónustu og fjármagnsflutningum á sameiginlega markaðnum fyrir fjármálaþjónustu. Tilskipuninni er jafnframt ætlað að greiða fyrir framkvæmd sameiginlegrar peningamálastefnu innan ramma efnahags- og myntbandalagsins með því að stuðla að skilvirkni í starfsemi evrópska seðlabankakerfisins yfir landamæri og auknum sveigjanleika í lausafjárstýringu á peningamarkaði.

Í athugasemdum með frumvarpinu er tekið fram að mismunandi kröfur einstakra ríkja um form samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir séu taldar hafa staðið í vegi fyrir skilvirkri nýtingu slíkra ráðstafana milli landa og hafi þannig hindrað samþættingu fjármagnsmarkaða innan ESB.

Tilskipuninni er ætlað að ryðja úr vegi slíkum hindrunum fyrir skilvirkri nýtingu fjárhagslegra tryggingarráðstafana á opnum og sameiginlegum fjármálamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Slíkar hindranir felast einkum, að því er segir í athugasemdum með frumvarpinu, í óþarflega íþyngjandi kröfum í landsrétti aðildarríkjanna um form, efni og fullnustu slíkra samninga og í ósamræmi í landsrétti einstakra ríkja á þessu sviði.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hef ákveðinn skilning á markmiði tilskipunarinnar og þar með talið frumvarpsins. En á þessu stigi vakna hjá mér nokkrar spurningar um það hvað þetta þýðir. Ég ætlast ekki til þess að þeim sé svarað hér og nú. Ég geri ráð fyrir því að hv. allsherjarnefnd muni fara ítarlega yfir efni þessa frumvarps. En það eins og ég rakti áðan hafa mismunandi kröfur einstakra ríkja um form samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir staðið í vegi fyrir skilvirkri nýtingu slíkra ráðstafana milli landa og hindrað þar af leiðandi samþættingu fjármálamarkaðanna innan ESB. Í tilskipuninni er ekki farin sú leið að búa til sameiginlegar formkröfur heldur er dregið úr slíkum kröfum og þannig treyst á gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkjanna á gildi slíkra samninga. Með því er aðildarríkjunum meinað að gera sérstakar formkröfur, m.a. um stofnun, gildi og fullnustu slíkra samninga. Frelsi til slíkrar samningsgerðar er því aukið en um leið er aðildarríkjunum lögð sú skylda á herðar að veita réttarvernd á grundvelli slíkra samninga.

Ég staldra svolítið við þetta atriði, þ.e. hvernig menn sjá fyrir sér að unnt sé að gera hvort tveggja. Mun ekki aukið samningsfrelsi og krafa um að aðildarríkin veiti slíka réttarvernd leiða til enn meiri réttaróvissu en ætlunin er að greiða úr? Þetta eru spurning sem vaknar við lestur þessa frumvarps og ég vonast til að við fáum einhver svör við henni í allsherjarnefndinni.

Í athugasemdum með frumvarpinu er reyndar tekið fram að þessi leið kunni auka nokkuð á vanda við túlkun og efndir slíkra samninga. Eitthvað segir mér að það hljóti að gerast og þá veltir maður fyrir sér hvort við sitjum ekki uppi með ákveðna réttaróvissu og mikinn fjölda slíkra mála sem skylt verður að kveða upp úr með.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið unnt að fara þá leið, þótt ekki væru settar sameiginlegar formreglur um efnið, og hvort ekki hafi komið til álita að setja t.d. einhvers konar leiðbeinandi reglur þannig að einhverjir staðlar séu til um hvaða kröfur um form slíkir samningar þurfi að uppfylla. En eins og ég segi þá ætlast ég ekki til að fá svör við þessum spurningum hér. Þetta er flókið mál og vekur margar spurningar um hvernig skuli fara með ágreiningsmál í framhaldinu. Þó að maður skilji vel markmiðið sem menn stefna að með tilskipuninni og frumvarpinu þá vakna, a.m.k. í huga mínum, margar spurningar um hvort við aukum ekki réttaróvissuna verulega og hvort ekki sé of langt gengið með því að leggja svo mikið í hendur samningsaðila að taka ákvarðanir um þessi mál. Ég held því að við hljótum að þurfa að skoða þetta örlítið betur.

Ég vildi jafnframt gera örlitla athugasemd við að ekki skuli látin fylgja með þýðing á tilskipuninni með frumvarpinu. Mér skilst að slík þýðing liggi alltaf fyrir með þingsályktunartillögunni, sem kemur í raun í gegnum utanríkismálanefnd þingsins. Það væri til mikils hægðarauka að hafa þýðingu hennar í fylgiskjali. Margt í frumvarpinu, ekki bara í þessu heldur á það almennt við um tilskipanir sem við innleiðum í íslensk lög, gerir það mikilvægt að hafa tilskipunina þýdda þar sem vísað er til hennar. Þegar ég las frumvarpið yfir í morgun þá kom í ljós að varðandi skilgreiningar, grundvallarskilgreiningar á hugtökum og annað, var vísað í tilskipunina sjálfa og ekkert útskýrt nánar. Þar segir: eins og það hugtak er skilgreint í viðkomandi tilskipun.

Það væri til mikils hægðarauka að þessar þýðingar fylgdu. Þær eiga að liggja fyrir þegar málin koma fyrir þingið og mættu gjarnan fylgja í fylgiskjali. Kannski væri vert hafa þá vinnureglu að þær séu í fylgiskjali, sérstaklega þegar um er að ræða flókin mál á borð við þetta þar sem maður þarf að skoða tilskipunina til þess hreinlega að átta sig á málinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni og geri ráð fyrir því að við munum fá svör við þeim fjölmörgu spurningum sem vakna við lestur frumvarpsins í allsherjarnefnd.