131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Happdrætti.

675. mál
[11:48]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég vil koma inn á örfá atriði þess frumvarps sem nú er til umræðu um happdrætti á Íslandi. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir það hvað hann kom hér skeleggt inn á það sem í vændum er með þessu frumvarpi svo og það sem mun gerast aftur á haustdögum.

Rétt er að nefna í örstuttu máli að áður hafði Samkeppnisstofnun fellt þann úrskurð að einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands stangaðist á við samkeppnislög og það hefur legið fyrir núna í á þriðja ár.

Ég vil þá víkja orðum mínum til hæstv. dómsmálaráðherra því vert er að gefa gaum að því sem segir í 5. gr. um skilyrði til leyfisveitinga, með leyfi forseta:

„Happdrættisleyfi er heimilt að binda því skilyrði að útgjöld til auglýsinga verði ekki umfram ákveðið mark“ — það er vissulega vel — „og einnig að leyfishafi leggi fé af mörkum til rannsókna og aðgerða sem miða að því að sporna gegn spilafíkn og afleiðingum hennar.“

Nú hefur það legið ljóst fyrir að spilafíknin hefur fyrst og fremst myndast vegna spilakassanna. Happdrætti Háskóla Íslands er bæði með flokkahappdrætti og spilakassa. Þarna eru skil á milli, virðulegi ráðherra. Það liggur alveg ljóst fyrir. Væri þess vegna óeðlilegt ef flokkahappdrættin ættu að fara að greiða sérstakt gjald vegna spilafíknar.

Aðeins til upprifjunar: Þegar SÁÁ t.d., Landsbjörg o.fl. hófu rekstur spilakassa var búið að ganga frá sérstökum samningi við SÁÁ um að þar væri til affíklunarleið spilafíkla og sú braut var sett upp. Það er eðlilegt að þeir sem reka spilakassa og það sem tengist spilafíkn greiði í þennan sjóð. Það er bara eðlilegt og sjálfsagt og vel hér meint sem kemur fram í 5. gr.

Í 6. gr. er talað um lágmarksaldur. Þó nokkrir aðilar afla fjár með t.d. skafmiðum og bingói. Þetta þýddi einfaldlega að í því sem stundum hefur þó verið fjölskylduskemmtun tæki ekki þátt yngra fólk en 18 ára. Ég nefni t.d. bingó. Nú fyrir páska var t.d. þó nokkuð um það að starfsmannafélög væru með bingó og í vinninga voru páskaegg. Er verið að bregðast við þessu?

Í annan stað vildi ég benda á 7. gr., með leyfi forseta:

„Í reglugerð skal kveðið á um hlutfall verðmætis vinninga ... Skal hlutfallið þó vera að lágmarki 35%.“

Nú er ljóst að vinningshlutfall er 20% í skafmiðum og í bingóum. Þetta þýðir því fyrir þessar tvær tegundir happdrættis, bingó og skafmiða, að þessi framkvæmd mun leggjast af.

Í 9. gr. er talað um skyldur leyfishafa. Þar segir m.a. í síðari setningunni, með leyfi forseta:

„Skal hann skila skýrslum eða reikningum um rekstur sinn ...“

Ég ætla að þarna sé átt við að aðilar skili ársreikningum sínum.

Ég vil líka koma að 10. gr. um eftirlit og spyrja hvort ekki sé um að ræða óbreytta eftirlitsskyldu ráðuneytisins, að áfram verði fylgst með útdráttum, eins og mörg happdrættisráð hafa nú í starfsemi sinni, þ.e. þessi þrjú happdrætti sem hæstv. dómsmálaráðherra nefndi áðan. Verður það eftirlit með útdráttum óbreytt áfram?

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, virðulegi forseti. Ég tek tillit til þess sem forseti sagði um tímasetningar á starfsháttum þingsins fram að hádegi.