131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Happdrætti.

675. mál
[11:53]

Einar Karl Haraldsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða frumvarp til laga um happdrætti og þarfa endurskoðun á þeim málum og löngu tímabæra. Þar sem hér er stuttur tími fram að hléi vil ég nota þetta tækifæri til þess að koma ýmsum spurningum á framfæri.

Í fyrsta lagi væri fróðlegt að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki hafi verið ástæða til að ná yfir allt þetta svið með einum heildarlögum í stað þess, eins og ætlunin virðist vera, að halda áfram sérlögum um ýmis happdrætti og endurskoða þau sérstaklega. Ég hefði talið það kost að til væru heildarlög um happdrætti í landinu og sé enga ástæðu til að viðhalda sérlögum um einstök happdrætti.

Hér er um að ræða samræmingu við það sem gildir í Evrópu almennt án þess þó að mótuð hafi verið nein Evrópustefna í þessum málum. Þess vegna finnst mér mjög skynsamlegt að leyfi til reksturs alþjóðlegra happdrætta hér sé áfram háð leyfisveitingu ráðherra og hvet ekki til þess að þar hrapi menn að neinu heldur fari varlega í þeim efnum.

Það er ljóst að fyrir ýmis samtök sem starfa að þjóðþrifamálum eru happdrætti mjög mikilvægur tekjuliður. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga þó að menn reki hér lottó, bingó, flokkahappdrætti og annað þess háttar. En ég set hins vegar verulegt spurningarmerki við að stofnanir eins og Háskóli Íslands og Rauði krossinn skuli reka spilakassa þar sem fyrir liggur að margir ánetjast þeim og fara út úr því afar illa fjárhagslega. Við þekkjum mörg dæmi um hrikalegar afleiðingar af slíkri spilafíkn. Auðvitað er sjálfsagt meðan þetta er við lýði að þeir sem telja sómasamlegt að stunda slíka starfsemi kosti aðgerðir til þess að bæta úr skaða sem þeir valda með henni. Ég get því tekið undir með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að það er dálítið langt seilst að þeim sem stunda happdrætti af annarri tegund sem varla er hægt að segja að skapi alvarlega spilafíkn sé líka gert að greiða gjald til þess að hamla gegn slíkri fíkn.

Ég vildi leggja spurningu fyrir hæstv. ráðherra. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að stuðst hafi verið við skýrslu nefndar sem starfaði 1999 til að endurskoða þessi mál. Spurning mín er hvort tillögurnar sem hér liggja fyrir séu mótaðar af niðurstöðum þessarar nefndar eða að hvaða leyti séu farnar aðrar leiðir en þar eru lagðar til. Fróðlegt væri að fá það fram.

Um 3. gr. er fjallað nokkuð. Þar er getið um þá sem eiga að fá ágóða af happdrættum og það skilgreint nánar. Talað er m.a. um þá sem stunda alþjóðlegt mannúðarstarf, t.d. Rauða krossinn og Hjálparstofnun kirkjunnar. Rétt er að taka það fram að það heitir Hjálparstarf kirkjunnar. En það skiptir ekki aðalmáli hér heldur hitt að þarna mætti halda af textanum að hjálparstarf kirkjunnar nyti ágóða af happdrættisstarfsemi eða svipaðri starfsemi og Rauði krossinn hefur með spilakössum. Það er ekki rétt. Hjálparstarf kirkjunnar byggir algjörlega á frjálsum framlögum einstaklinga og félagasamtaka og nýtur engra fastra opinberra styrkja. Kannski ber að skilja þetta þannig að ráðherra sé að hvetja til þess að Hjálparstarf kirkjunnar sækist eftir því að stofna til happdrættis. Fróðlegt væri að heyra um þetta.

Hins vegar vekur þetta upp — það skulu vera mín lokaorð — spurningar um það hvort æskilegt sé að fjármagna starfsemi af þessu tagi með happdrætti og annarri slíkri fjáröflun. Til dæmis veit ég að samtök eins og Rauði krossinn og hjálparstarf kirkjunnar annars staðar á Norðurlöndum eru fjármögnuð að verulegu leyti af opinberu þróunarfé. Þá velja menn það frekar í staðinn fyrir að halda uppi stofnun sem sér um þróunarstörf á vegum ríkisins að reka það eins og banka sem síðan deilir út fé til skilgreindra verkefna, til frjálsra hjálparsamtaka sem annast síðan framkvæmd verkefnanna og þá eru gjarnan sett þau skilyrði að þau samtök starfi í samræmi við reglur sem Sameinuðu þjóðirnar hafa mótað um hjálparstarf.

Í umræðum um happdrættismál verðum við því líka að taka til umræðu að hvaða leyti eðlilegt er að stofnanir sem stunda ýmis þjóðþrifamál á alþjóðavettvangi og innlendum vettvangi séu fjármagnaðar í eins ríkum mæli og hér er af happdrættisfé.

Hæstv. ráðherra nefndi að í samræmi við úrskurð Samkeppnisstofnunar og tilmæli Eftirlitsstofnunar EFTA stæði til að einkaleyfi Háskóla Íslands til happdrættisreksturs yrði afnumið og nefndi að tekjutap ríkissjóðs yrði þar bætt með sérstökum hætti. Því vil ég að lokum spyrja hæstv. ráðherra að hvaða leyti tekjutap Háskóla Íslands yrði bætt vegna þeirrar breytingar og hvort metið hafi verið að hvaða leyti Happdrætti Háskóla Íslands yrði fyrir tekjutapi og hvort hæstv. ráðherra hafi hugmynd um hvernig það yrði bætt.