131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Happdrætti.

675. mál
[12:01]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég skal fara hratt yfir sögu varðandi þær athugasemdir sem fram komu í máli síðasta hv. ræðumanns. Tillögurnar frá nefndinni 1999 voru hafðar til hliðsjónar en frumvarpið er ekki byggt á þeim tillögum öðruvísi en þeim viðhorfum þar að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin frá 1926. Með þessu er ekki verið að leggja til að Hjálparstarf kirkjunnar sé fjármagnað með happdrætti. Þvert á móti er verið að rökstyðja að aðilar sem sinna alþjóðlegu hjálparstarfi geti fengið leyfi samkvæmt lögum, en það er ekki verið að taka afstöðu til þess hvort slíkir aðilar sæki um leyfið eða ekki.

Varðandi það hvernig lögin eru úr garði gerð, hvort skynsamlegt hefði verið að taka öll sérlögin í heildarlöggjöfina er það álitamál, en niðurstaða okkar að vel ígrunduðu máli var sú að fara þá leið sem hér er. Ég tel að það sé skynsamlegt því með þessu er ákveðinn heildarrammi skapaður. Þetta minnir á löggjöf t.d. um háskóla eða aðra slíka starfsemi þar sem menn setja almennar leikreglur í lögum eins og þessum og síðan sérlög um einstaka aðila, því hið sama á kannski ekki við um hvern og einn þegar að því kemur. Það er úrlausnarefni sem ég held að sé ekki óskynsamlegt fyrir þingið svo það geti tekið afstöðu til málsins á fleiri en einu stigi.

Varðandi tekjutap Háskóla Íslands mundi ég ekki tala um þetta sem neitt tekjutap fyrir Háskóla Íslands því einkaleyfisgjaldið hefur verið notað til þess að leggja fram fé í ákveðna rannsóknasjóði og engin trygging fyrir því að Háskóli Íslands fái það fé. Hins vegar, ef frumvarpið nær fram að ganga, mun einkaleyfisgjaldið falla niður og Happdrætti Háskóla Íslands greiða leyfisgjald eins og önnur happdrætti, væntanlega miðað við veltu sína og afkomu. Að mínu mati mun þetta því frekar rýmka fjárhagsstöðu Happdrættis Háskóla Íslands en hitt um leið og það missir þá sérstöðu sem það hefur haft í krafti einkaleyfisins. Þetta eru þau atriði sem hv. þingmaður nefndi og ég staldraði sérstaklega við.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson vék einnig að ýmsum atriðum. Ég vil aðeins vegna orða hans minna á að hér er verið að fjalla um leyfisskyld happdrætti eða hlutaveltur, en einnig er tekið fram að það getur verið að á árshátíðum, skemmtunum og fjölskylduhátíðum einhvers konar komi menn saman og efni til einhverra skemmtihappdrætta eða reka bingó sem ekki eru leyfisskyld samkvæmt lögum. Menn geta að sjálfsögðu gert slíkt innan þeirra marka sem eðlilegt er. Þetta er leyfisskyld starfsemi sem þarna er um að ræða. Einnig þegar hann minnist á skafmiðana er það peningahappdrætti en ekki happdrætti í þeim skilningi sem við fjöllum endilega um hér, því við fjöllum ekki um peningahappdrættin, við fjöllum um leyfisskyldar hlutaveltur og happdrætti í þrengri skilningi en þegar við lítum á alla flóruna, peningahappdrættin og þær skyldur sem verða settar á þau.

Menn verða því aðeins að líta til þess þegar um málið er fjallað og líka þegar talað er um lægri en 18 ár. Það fer eftir því hvers lags starfsemi þetta er. Ef þetta er á einhverjum vinnustað þar sem menn efna til happdrættis eða fara í bingó sér til skemmtunar í hópnum er ekki leyfisskylda, þá þarf ekki að leita leyfis til dómsmálaráðherra til að fara út í slíka starfsemi. Það er því nauðsynlegt að líta á það að hér er ekki verið að hlutast til um staðbundna starfsemi, bundin við eitt kvöld eða annað slíkt, það er ekki tilgangurinn að fara að skipta sér af því.

Síðan er spurningin um hverjir eiga að leggja af mörkum til að sporna gegn spilafíkninni, hvar er upphafið og hvar er endirinn í því? Ég ætla ekkert að tjá mig um það hér. Ég heyri þær raddir sem komið hafa fram um það en aðrir eru betur færir um það en ég að segja til um það hvort ósanngjarnt sé að leggja það á happdrætti sem verða samkvæmt þessu peningahappdrætti og starfa á jafnréttisgrundvelli að því leyti, hvort það á aðeins að leggja það á þá sem eru með spilakassa. Ég er ekki viss um að kveikjan að spilafíkn vakni bara við spilakassa. Það getur verið við aðra starfsemi og það er það sem menn leggja áherslu á í öllu þessu starfi. Þetta er líka hluti af því hvernig við ætlum að nálgast það þegar við förum í hið alþjóðlega umhverfi sem við störfum í, hvaða kröfu við ætlum að gera. Þar eru gerðar kröfur til þess að menn leggi fé af mörkum til rannsókna og aðgerða sem miða að því að sporna gegn spilafíkn. Við getum ekki mismunað aðilum í því. Það þarf að færa einhver vísindaleg rök fyrir því ef ein spilamennska er síður til þess fallin að ýta undir spilafíkn en önnur.

Ég ítreka það, herra forseti, að ég vænti þess að hv. allsherjarnefnd fari yfir þetta frumvarp eins og önnur og geri það af þeirri vandvirkni sem hún er þekkt fyrir.