131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:39]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það vekur auðvitað athygli að hér er ekki einn einasti ráðherra viðstaddur. Við vitum, hæstv. forseti, að sumir þeirra eru í húsinu en hafa kosið að hlusta ekki á þessa umræðu. Ég vil beina þeirri ósk til hæstv. forseta að forseti kalli á þá ráðherra sem eru í húsinu og óski eftir því að þeir séu hér til staðar, þeir bera ákveðnar þinglegar skyldur eins og við hin. (Gripið fram í: Og forseti Alþingis.) Já, og hæstv. forseti Alþingis

Verið er að ræða fundarstjórn forseta vegna þess að farið er fram á að forseti kalli ráðherra til setu inni í þingsal þannig að þeir hlýði á mál hv. þingmanna, þeir hafa ákveðnum þinglegum skyldum að gegna. Fyrir hönd Samfylkingarinnar fer ég líka fram á að menntamálanefnd verði kölluð saman til fundar til að ræða það alvarlega ástand sem ríkir hjá Ríkisútvarpinu.

Þetta er ákall til okkar, virðulegi forseti, um viðbrögð okkar og þá hljótum við að óska eftir svörum frá hæstv. forseta um það með hvaða hætti þingið bregst við og þá fyrst og síðast að menntamálanefnd verði kölluð saman til að fjalla um málið nú þegar.