131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:58]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Um fundarstjórn forseta er það að segja núna að ekki hefur verið orðið við því af hálfu hæstv. forsætisráðherra — sem ekki er í salnum þó að hann hafi verið hér í allan morgun — og ekki af forseta Alþingis, þess sem kjörinn var, að veita viðbrögð við því ákalli sem beðið var um að þeir brygðust við. Það er skylda þeirra að gera það. Forseti Alþingis tók við þessu skjali niðri áðan. Ekki er ljóst hvað hann ætlar að gera við það nema hvað hann hefur frestað því fram yfir helgi og er að bíða eftir kalli frá hæstv. menntamálaráðherra í útlöndum.

En í þessu máli er það í raun ekki menntamálaráðherra sem er til svara. Það er ríkisstjórnin samanlögð. Það eru fulltrúar beggja stjórnarflokkanna sem hafa komið þessum málum á Ríkisútvarpinu í það klúður og það neyðarástand sem raun ber vitni. Þess vegna á það að vera forsætisráðherrann sem hér á að vera í stólnum að tala um þetta mál, skýra það af sinni hálfu og reyna að svara þeim spurningum sem bornar hafa verið fram.

Ég þakka forseta fyrir að hafa komið til hans þeim boðum að menn séu að bíða eftir honum. En ég get ekki þakkað forsætisráðherra fyrir það að taka önnur verk fram yfir þau sem eru honum skyldust í dag, 1. apríl 2005, sem af öllum þeim fyrstu aprílum sem venjulega eru fréttaefni er kannski fréttamestur, að standa frammi fyrir þingi sínu og þjóð og skýra það hvers vegna nær 75 ára stofnun er nú í uppnámi eftir að hafa verið leikin sem raun ber vitni af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.