131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:59]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að bera blak af fundarstjórn forseta en það hlýtur að vera mjög erfitt að stýra fundum á þingi þegar í forsæti ríkisstjórnar Íslands er þvílík lúpa, að geta ekki mætt og skýrt fyrir okkur … (Forseti hringir.)

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þingmann að gæta orða sinna.)

Já, ég skal reyna að koma orðum að þessu. Mér hefði fundist hann maður að meiri, forsætisráðherra þjóðarinnar, ef hann kæmi og útskýrði stjórnarathafnir sínar. Þetta er erfið staða fyrir hæstv. forseta, að þurfa að halda þingfundi þegar menn flýja af vettvangi, þora ekki að standa fyrir máli sínu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sjáum það slíkt gerast og það er mjög erfitt fyrir hæstv. forseta.

Þegar kom að Íraksmálinu, þá var farið í frí. Síðan er flúið út á land. Það er erfitt að halda dagskrá og stjórna fundum þegar svo er. Ég skora á hæstv. forsætisráðherra og sjá sóma sinn í að taka til máls og reyna að skýra út stjórnarathafnir sínar. Við sáum að útvarpsstjóri lét ekki ná í sig út af þeim ráðningarmálum sem eru hér nú til umræðu og ég hef fullan skilning á því. (Gripið fram í.) Já, ég hef fullan skilning á þessu og tel að fundarstjórn forseta hafi verið ágæt en það er erfitt að stjórna fundum þegar menn geta ekki svarað og talað sínu máli, frú forseti.