131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[14:07]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil að það komi fram að ég tel það skyldu forseta Alþingis og í hans verkahring að meta rök þingmanna fyrir því að beðið skuli um að forsætisráðherra verði til andsvara í umræðunni sem hér um ræðir, en ekki hæstv. menntamálaráðherra í ljósi þess að hún er í útlöndum.

Rök mín voru lögð á borð hæstv. forseta á þingflokksformannafundi áðan. Ég tel þau hafa verið fullgild og harma að röksemdafærslu minni skyldi hafnað af hæstv. forseta. Ég tel að það hafi ekki verið gert með gildum rökum.

Eins og þessi umræða hefur leitt í ljós er um afar alvarlegt mál að ræða. Við búum við þrískiptingu valdsins samkvæmt stjórnarskrá. Við skiptum valdi okkar samkvæmt því lýðræðisskipulagi í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Svo vill þannig til að fjórða valdið í samfélagi okkar eru fjölmiðlarnir. Það er eðlilegt, þegar þingmönnum er misboðið á þeim nótum sem nú er verið að gera, að misbjóða þjóð og þingi með aðgerðunum sem standa yfir í Ríkisútvarpinu, að við undirstrikum alvarleika málsins með því að óska nærveru forsætisráðherra við umræðuna.

Ég vil að það sé ljóst að það eru fullgild rök fyrir því að viðveru forsætisráðherra var óskað. Ég harma að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki hafa haft kjark til að svara fyrir þá ósvinnu sem á sér stað og þegar menn hafa nefnt valdarán hjá einni öflugustu lýðræðis- og menntastofnun þjóðarinnar.

Það segir sína sögu, hæstv. forseti, að fréttastjórinn nýi skuli hafa átt leynifundi með formanni útvarpsráðs. Það staðfestir að ávirðingar okkar, ávirðingar þær sem hafa verið uppi um tengsl hins pólitíska valds Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, eiga við rök (Forseti hringir.) að styðjast.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þingmann að halda sig við að ræða um fundarstjórn forseta.)

Hæstv. forseti. Ég hef komið skilaboðum mínum til skila. Ég tel mig hafa haft fullgild rök fyrir því að biðja um að hæstv. forsætisráðherra væri við þessa umræðu og ég harma að hann skyldi ekki hafa haft kjark til þess.