131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Áfengislög.

676. mál
[14:16]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum hér að ræða áfengislögin og líst mér ágætlega á það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég tel þó að taka eigi fleiri þætti til skoðunar í áfengislögunum og þá á ég sérstaklega við 14. gr. laganna. Ég mælist til þess að hæstv. ráðherra taki það til greina og endurskoði þau leyfi sem veitingastaðir þurfa að sækja um. Þetta er orðið of mikið og löngu tímabært að endurskoða öll þessi leyfi. Til dæmis veitir sveitarstjórn leyfi til áfengisveitinga og hún þarf að fá umsögn bæði lögreglustjóra og heilbrigðisnefndar. Lögreglustjóri veitir samt sem áður sitt eigið leyfi og fær þá umsögn bæði heilbrigðisnefndar og sveitarstjórnar. Síðan þarf viðkomandi veitingastaður að fá tóbakssöluleyfi og ýmislegt fleira. Það er orðið löngu tímabært að taka á þessum leyfisveitingum sem eru orðnar allflóknar, enda margir aðilar að veita leyfi. Ég tel að þessi leyfi eigi í rauninni að vera eingöngu hjá sýslumönnum sem halda þá utan um þau. Síðan verða þá annaðhvort heilbrigðisnefndir eða sveitarstjórnir umsagnaraðilar um leyfin en það á ekki að veita leyfi á fjölmörgum stöðum í stjórnsýslunni.

Einnig vil ég gera þá athugasemd við 14. gr. að þar segir að heilbrigðisnefnd eigi að meta „innréttingu og annað svipmót veitingarekstrar“ út af áfengisveitingaleyfi. Svona nokkuð á alls ekki heima í slíkum lögum. Maður botnar ekkert í því hvernig heilbrigðisnefnd eigi að meta svipmót einhvers veitingastaðar og hvað það komi í rauninni áfengisleyfi við. Ég tel að þetta eigi að falla út og að jafnframt eigi að koma þessum leyfum í auknum mæli til sýslumanna. Heilbrigðisnefndir og sveitarfélög eiga eingöngu að vera umsagnaraðilar. Ég held að betur færi á því að leyfin yrðu veitt hjá sýslumönnum en ekki úti um allan bæ.

Veitingastaðir eru lítil fyrirtæki og þurfa að fara út um allan bæ til að fá leyfi fyrir einföldum rekstri þar sem fáir vinna. Ég þekki það úr mínu fyrra starfi að fólk skilur í rauninni ekkert í þessu og það hlýtur að vera hægt að einfalda þessa stjórnsýslu. Það er orðið löngu tímabært að það verði gert. Ég mælist til þess að hæstv. ráðherra skoði hvort ekki sé einmitt ráð að huga að því að fara að einfalda stjórnsýsluna og leyfisveitingar fyrir atvinnurekstur sem er oft smár í sniðum.