131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:28]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Engum sem fylgst hefur með málefnum ferðaþjónustunnar blandast hugur um það að ýmislegt þarf að breytast og á mörgu þarf að taka til að efla umgjörð og umhverfi þessarar mikilvægu atvinnugreinar okkar Íslendinga þó svo að harðast hafi kannski verið gengið gegn henni með virkjanaframkvæmdum á síðustu árum.

Mig langaði að spyrja hæstv. samgönguráðherra sérstaklega að einu. Nú hafa forustumenn og talsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar kvartað undan háu áfengisgjaldi á léttvín og bjór og ítrekað lagt fram óskir um að leitað verði leiða til að lækka áfengisgjaldið á þessar vörur þannig að ferðamönnum bjóðist þær á sambærilegu verði og gerist og gengur í nágrannalöndunum. Verð á léttvíni og bjór sem er t.d. mikil neysluvara með mat hjá mjög mörgum útlendingum þarf að verða lægra.

Í tillögunni sem við ræðum í dag um ferðamál segir t.d., með leyfi forseta:

„Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar.

1. Opinber gjöld af aðföngum og búnaði til ferðaþjónustu verði sambærileg við gjöld í samkeppnislöndum.“

Einnig segir síðar í þessu ágæta plaggi um leiðir til að bæta rekstrarumhverfið:

„Skattlagning verði endurskoðuð.

Opinber gjöld vegna aðfanga og búnaðar til ferðaþjónustu verði sambærileg og í samkeppnislöndum okkar.“

Eins og forustumenn ferðaþjónustunnar hafa lagt þetta upp hallar á samkeppnishæfi Íslands sem ferðamannalands vegna hins háa gjalds á léttvín og bjór og það fælir útlendinga jafnvel frá. Út spyrst hve himinhá verðlagningin er á þessa vöru. Þó hefur einnig komið fram að stór hluti þess er líka mikil álagning veitingamanna en það þarf að sjálfsögðu að skoða líka.

Því spyr ég hæstv. samgönguráðherra hvort hann leggi sama skilning í þennan lið í tillögunni hvað varðar opinber gjöld af aðföngum til að bæta rekstrarumhverfið. Mun hann beita sér fyrir því að gjald á léttvín og bjór lækki eins og talsmenn og forustumenn ferðaþjónustunnar hafa hvatt mjög til á liðnum missirum til að bæta einmitt rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar?