131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:36]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. samgönguráðherra og ferðamálaráðherra til hamingju með að hafa lagt fram þessa þingsályktunartillögu. Hún er einn fyrsti formlegi ramminn um þennan atvinnuveg í heild eða a.m.k. tilraun til þess að taka á honum heildstætt á Alþingi og er sjálfsagt að lýsa yfir ánægju með það.

Ég vil líka taka undir þær grunnáherslur sem eru lagðar fram í þessari þingsályktunartillögu t.d. í meginmarkmiðunum, með leyfi forseta:

„1. Náttúra Íslands, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála. …

4. Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.“

Þetta einnig, með leyfi forseta:

„2. Ísland verði í forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu. …

Kynningarmál.

1. Áfram verði unnið að uppbyggingu ímyndar Íslands og hún varin með því að leggja áherslu á eftirfarandi þætti í kynningarstarfi ferðaþjónustunnar:

a. einstaka og fjölbreytta náttúru,

b. umhverfisvernd“.

Það má eiginlega segja að þessir grunnþættir séu eins og rauður þráður í gegnum þessa þingsályktunartillögu eins og eðlilegt er og jafnframt áhersla hæstv. ráðherra á þennan vaxandi atvinnuveg.

En ég spyr ráðherrann. Nú höfum við ráðherra iðnaðar- og atvinnumála sem ríður um héruð og boðar virkjanir og stóriðju í hverju fallvatni og hverri náttúruperlunni á fætur annarri. Er ráðherrann einn í þessari ríkisstjórn um þennan ágæta áhuga sinn og ágætu markmið sem hér eru sett fram eða getum við sett einhver bönd t.d. á iðnaðarráðherrann til að koma í veg fyrir að hún eyði íslenskum náttúruperlum og vinni gegn (Forseti hringir.) hagsmunum íslenskrar ferðaþjónustu eins og hún er berlega að gera?