131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:19]

Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni með þá þingsályktunartillögu sem hér er fram komin.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að ræða í þessu samhengi. Ég er ánægð með áhersluna á menningu og náttúru í þessu umhverfisvæna samhengi, sem er nokkuð auðveld söluvara eða auðvelt fyrir Íslendinga að selja. Það sem ég vildi er að við horfðum á ferðamennskuna meira sem atvinnugrein, þ.e. atvinnugrein þar sem öllum upplýsingum er haldið til haga um þessa tilteknu grein og arðsemi hennar á einum stað þannig að okkur sé ljóst hvað er að gerast. Ég tel að þær upplýsingar liggi svo víða, hjá svo mörgum stofnunum og hjá svo mismunandi ráðuneytum, að okkur sé ekki alltaf alveg ljóst hver staða atvinnugreinarinnar er, hver arðsemi hennar er og hver staða hennar til atvinnusköpunar er í landinu.

Ég tek undir það sem hér hefur áður komið fram að fyrir okkur landsbyggðarmenn er þetta gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og getur á mörgum stöðum þar sem fámennt er jafnvel gert fólki kleift að búa þar sem það vill búa.

Næst vil ég fjalla aðeins um símenntun eða menntun í þessu samhengi og þá sérstaklega að ekki er boðið upp á slíka menntun. Má þar nefna starfsnám og fjarnám, en nauðsynlegt er að þessi endurmenntun sé fyrir hendi. Eitt vildi ég nefna í sambandi við háskólanám að t.d. í Háskólanum á Akureyri er talsverð þróun í tengslum við Norðurslóðir, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar o.fl., og á þessu er mikill alþjóðlegur áhugi. Að í tengslum við ferðamennsku og þessar hugmyndir verði beinlínis nám á erlendri tungu fyrir útlendinga til að koma og stunda nám í því sem er dálítið sér hjá okkur og gæti tengst ferðaþjónustunni til að efla kynningu og annað í því samhengi. Það eru atriði sem mér finnst að skoða mætti.

Fram kemur fram að stefna skuli að því að tryggja aðgengi að háhraðaneti við fjarnám. Við fyrstu sýn er mér er ekki alveg ljóst af því sem hér kemur fram hvort verið er að tala um háhraðanet fyrir nemendur og kennara eða fyrir símenntunarmiðstöðvar. En ég held að það verði í auknum mæli einstaklingar sem halda kannski úti ferðamennsku í litlum dal eða litlum firði sem vilja stunda fjarnám en hafa ekki aðgengi að háhraðaneti eða gott aðgengi að interneti til að þeir geti það. En það tengist svo auðvitað því — svo að ég hangi aðeins á netinu — að ferðaþjónusta í dreifðum byggðum hafi öruggt aðgengi að netinu til að dreifa upplýsingum sínum til annarra. Það skiptir líka verulegu máli.

Hvað varðar samgöngur og að reyna að dreifa ferðamennskunni um landið þá tel ég mikilvægt að millilandaflug sé ekki einvörðungu frá á einum stað heldur að hægt sé að tryggja að ferðamenn geti komið til landsins á fleiri stöðum, t.d. til Akureyrar eins og hægt var um tíma eða til Egilsstaða eins og líka hefur verið hægt, þ.e. að ferðamaðurinn geti ákveðið hvers konar ferð hann er að fara í með vali sínu á lendingarstað í landinu. Ég held að það sé líka atriði.

Um gögn og gagnasöfnun um ferðamennsku þá hefur verið minnst á upplýsingar á netinu og annað slíkt. Þegar ég var á ferð um Jórdaníu fyrir hálfum mánuði, ég var í vinnu þar, fékk ég allt í einu auglýsingar og kynningar um í hvaða háskóla ég gæti farið, hvaða blöð ég ætti að lesa og þar sem ég var með farsíma frá öðru landi komu þær kynningar á ensku en ekki arabísku. Ég tel gríðarlega mikilvægt að skrásetja staði á Íslandi, menningu og minjar í gagnagrunn sem hægt væri að sækja sér upplýsingar í gegnum farsíma á ferð um landið, þannig að ég geti tekið upp símann minn — öll tækni er fyrir hendi í dag, menn vita hvar ég er með farsímann hverju sinni — og spurt: Hvar er næsti veitingastaður? Hvað er merkilegt að sjá hér? Að jafnvel farsíminn viti á hverju ég hef mestan áhuga og geti sagt: Hér er merkur listamaður sem þú hefðir kannski gaman af að kynna þér. Þetta færi fram á töluðu máli og ég þyrfti ekkert að komast í tölvu- og itnernetsamband. En það byggist auðvitað á því að ég hafi farsímasamband þar sem ég ferðast, grunnatriði eins og gagnaflutningasamband og farsímasamband skipta meginmáli í þessu samhengi.

Í dag er kleift að hringja í eitt símanúmer og biðja á töluðu máli um mynd af þeim fjallvegi sem maður er að fara um. Það hjálpaði mér um daginn þegar ég þurfti að fara yfir Víkurskarð í tvísýnu veðri að ég gat fengið mynd af veginum í símann minn og séð að öllu var óhætt. Ég held að hægt sé að kynna ýmsa slíka hluti með því að eiga í gagnasafni myndir sem hægt er að senda í síma og annað og að skrásetja gögn miðað við þá tegund ferðahópa sem hingað koma. Til dæmis gæti ljósmyndari sem hefur áhuga á ljósmyndum bara sem tómstundagamni fengið upplýsingar á ferð sinni um það sem tengist því og gæti verið áhugavert. Eða fuglaskoðunarmenn, þeir sem hafa áhuga á tónlist, sögu eða myndlist. Við þekkjum bækurnar um sögurnar við þjóðveginn o.fl., að þetta sé líka í gagnagrunni og að sé hægt að nálgast það með þessum hætti.

Síðan má auðvitað minnast hér á varúðarráðstafanir, að það er ekkert auðvelt að ná í ferðamenn og þá er þessi tækni líka alveg kjörin til að koma boðum til manna, að þeir geti skráð sig inn í þar til gerðan grunn, af því að auðvitað viljum við ekki kæfa fólk með alls konar auglýsingum. Ég var t.d. ekkert hrifin af öllum SMS-skeytunum sem komu til mín, hvort sem ég var í Amman eða í norður- eða suðurhluta Jórdaníu. Það verður því að hafa á þessu skynsamleg mörk og ekki kaffæra fólk með þessu.

Hvað varðar varúðarráðstafanir, merkingar og annað þá finnst mér að við ættum að taka tillit til hvert er móðurmál þeirra nýbúa sem helst búa hér á landi og að þeir hafi möguleika á að nálgast upplýsingar á tungumáli sínu.

Varðandi rannsóknir sem er síðasta atriðið sem ég vildi tiltaka þá kemur fram að hlúð verði að hvers kyns grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra hvort hér sé verið að tala um styrki, hvort hér sé verið að tala um frumkvæði eða annað slíkt á þessu sviði. Einnig væri gaman að vita hvort verið væri að huga að lausnum viðlíka þeim sem ég hef verið að nefna í öðrum atriðum.