131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[16:22]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þingmanni finnst eitthvað vanta upp á möguleika til að taka á starfsemi Íslandsmarkaðar samkvæmt þessum lögum og þá með reglugerðum er sjálfsagt að það verði skoðað í nefnd. Auðvitað er reynt að gera reglugerðina þannig úr garði að sem minnstar líkur séu á því að upp komi deilumál. Það er hins vegar ekki víst að hægt sé að koma í veg fyrir það svo að einhlítt sé.

Síðan má jafnframt deila um það hvort löggjöfin eigi að gera ráð fyrir því í sérstakri úrlausn á deilumálum eða hvort það eigi að vera hið almenna kerfi sem við höfum til að leysa úr deilumálum sem upp koma í þjóðfélaginu.

Síðan varðandi stefnumörkun um það að takmarka eða skilyrða útflutning var það rætt hér í fyrirspurnatíma fyrr í vetur. Ég svaraði því þá að ekki væru af hálfu stjórnvalda uppi neinar hugmyndir um stórkostlegar breytingar á því ástandi sem þar er í dag. Hins vegar tel ég að betri og markvissari reglur sem byggðu þá á lagaramma sem þessum væru til þess fallnar að styrkja markaðina og það gerir það auðvitað meira aðlaðandi fyrir þá sem ráðstafa aflanum að láta hann fara um uppboðsmarkað.