131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

.

. mál
[16:24]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég byrja á því að fagna framlagningu þessa frumvarps. Það var löngu kominn tími til þess að farið yrði í gerð nýs frumvarps til laga um uppboðsmarkaði sjávarafla. Lögin sem markaðirnir hafa unnið eftir hingað til tóku gildi 1. janúar 1990 og einu sinni hefur verið gerð á þeim breyting síðan, árið 1991. Mér er vel kunnugt um, eins og flestum öðrum, að það hefur verið mikill þrýstingur af hálfu þeirra sem starfrækja fiskmarkaði á Íslandi í dag að sett yrðu ný lög um þessa starfsemi. Lögin sem til eru voru nánast sett til bráðabirgða eftir því sem menn sem best til þekkja vita, nokkurs konar minnisblað um starfsemi fiskmarkaða. Þetta var algerlega ný starfsemi á Íslandi og menn vissu ekki hvernig þessi tilraun mundi takast og því var ákveðið að lögin um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla væru ekki mjög ítarleg og að farið yrði svo í að skoða þau í samræmi við þróun markaða. Síðan eru liðin öll þessi ár og fiskmarkaðir á Íslandi búnir að starfa hartnær í 20 ár án þess að hafa haft sterkara lagaumhverfi en raun ber vitni.

Það eru ýmis atriði í þessu frumvarpi sem eru til bóta frá þeim lögum sem gilt hafa. Ég verð þó að segja að ég hélt að við mundum sjá meiri metnað í gerð nýrra laga um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla, sérstaklega með tilliti til þess hvað búið er að taka langan tíma að fara í gegnum gömlu lögin og koma fram með þetta nýja frumvarp.

Atriðin sem eru til bóta í þessu frumvarpi eru aðallega þrjú, sýnist mér. Það er gert ráð fyrir að starfsleyfi fiskmarkaða verði gefin út til lengri tíma en eins árs sem er til verulegra bóta. Í raun hefur legið á því nokkuð lengi að fiskmarkaðir fengju starfsleyfi sem giltu til lengri tíma en eins árs í senn. Síðan er verið að setja í lög að sett verði ein samræmd reglugerð í stað þess að fiskmarkaðirnir hver og einn setji sér eigin starfsreglur sem ráðherra þurfi síðan að staðfesta. Það getur þýtt að markaðirnir starfi eftir mjög misjöfnum reglum og alls ekki er um neina heildarsamræmingu að ræða. Hið þriðja sem er til bóta í þessu frumvarpi er skilgreining á þeim hugtökum sem að þessu máli koma, svo sem hvað felist í orðunum leyfishafi, uppboðsmarkaður, uppboðsstaður og uppboðsstjóri.

Þegar við rennum yfir þennan texta má sjá að í 1. gr. er farið yfir það að sjávarútvegsráðherra veiti leyfi til að reka uppboðsmarkað fyrir sjávarafla. Greinin er nánast óbreytt frá fyrri lögum. Maður veltir fyrir sér af hverju ekkert sé reynt að taka utan um aðra starfsemi fiskmarkaða en uppboð á sjávarafla í þeim lögum sem nú á að setja. Nú er það þekkt að til eru fiskmarkaðir sem jafnframt höndla með kvóta, standa jafnvel í kvótaleigu, kvótakaupum og slíku. Spurningin er hvort hæstv. ráðherra telji það samræmast starfsemi uppboðsmarkaða fyrir sjávarafla að þeir stundi slíka starfsemi og hvort rétt væri að setja það í lög hvaða aðra starfsemi en uppboð á sjávarafla þessi fyrirtæki mættu stunda.

Þegar við förum yfir skilgreiningarnar veltir maður aðeins fyrir sér hvaða stakk þær sníða þeirri starfsemi sem hér um ræðir. Uppboðsmarkaður er sagður vera markaður „þar sem sjávarafli er seldur á frjálsu uppboði og aðilar hafa tækifæri til að kynna sér ástand aflans á uppboðsstað“. Allir sem til þekkja um rekstur fiskmarkaða vita að á mörgum fiskmörkuðum gengur þetta ekki þannig fyrir sig, og á þeim fæstum er aflinn á uppboðsstað þegar verið er að bjóða hann upp. Ég velti fyrir mér hvort þessi texti eða þessi skilgreining á því hvað uppboðsmarkaður sé geti hreint og klárt gengið í bága við það sem gerist á þessum markaði í dag og hvort það geti ekki orðið til vandræða að hafa þetta skilgreint svona í lagatextanum.

Sama með uppboðsstaðinn, það er staður „þar sem aðilar geta kynnt sér afla sem seldur verður á uppboði“. Þarna er orðalag að nokkru leyti ónákvæmt. Hvað þýðir það „að kynna sér afla“? Er það eingöngu að kynna sér upplýsingar um hvaða afli verður boðinn upp eða er það, eins og orðanna hljóðan segir, að menn geti þá skoðað þann afla sem á að fara að selja? Það er bara ekki þannig á flestum fiskmörkuðum að fiskurinn sé þar þegar hann er seldur, heldur er hann enn þá um borð í bátunum og jafnvel verið að draga hann í veiðarfæri á þeim tíma sem hann er seldur.

Það er til bóta í frumvarpinu að uppboðsstjóri er skilgreindur núna sem sá „aðili sem leyfishafi hefur falið að annast framkvæmd uppboðs og hlotið hefur löggildingu ráðherra“. Maður veltir fyrir sér hvaða kröfur verði uppi um löggildingu, hvort krafist verði ákveðinnar menntunar, réttinda, náms eða einhvers slíks til að aðilar geti hlotið löggildingu ráðherra sem uppboðsstjórar. Ekki er hægt að sjá í þessu frumvarpi eða greinargerð með því hvaða kröfur verða lagðar á slíka aðila.

Það er til bóta að fram kemur að uppboðsstjórar mega ekki bjóða í fisk sjálfir. Það hefur svolítið borið við í núverandi starfsemi fiskmarkaða að nánast þeir sem stýra uppboðunum hafa getað, og stundum gert, boðið í afla sem verið er að bjóða upp. Það samrýmist náttúrlega alls ekki óvilhallri starfsemi að allra mati þannig að það er gott að taka af öll tvímæli um að slíkt verði ekki leyfilegt, að uppboðsstjóri geti sjálfur boðið í eða boðið í fyrir aðra aðila meðan uppboð fer fram.

Það er ekki langt síðan við ræddum einmitt málefni fiskmarkaða á hinu háa Alþingi. Þann 9. febrúar sl. spurði hv. þm. Kristján L. Möller hæstv. ráðherra hvaða áform hann hefði um að taka lög og reglur um fiskmarkaði til endurskoðunar. Þar svaraði ráðherrann að unnið væri að nýrri lagasetningu. Þetta væri ekki sérstaklega flókið mál að hans áliti, menn hefðu verið að velta fyrir sér þessum málefnum, verið í sambandi við forsvarsmenn fiskmarkaða og væru að vinna að því að leggja fram frumvarp um þetta efni á þinginu fljótlega, enda eru það komið hér fram núna.

Það vakti athygli mína í svari hæstv. ráðherra við þessari fyrirspurn að hann vonaðist til þess að endurskoðun reglugerðar yrði lokið á sama tíma og frumvarpið kæmi fram. Í svari hæstv. ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Ég vonast til að það geti staðist á að endurskoðuð lög um uppboðsmarkaði verði tilbúin, að endurskoðun reglugerðarinnar verði lokið og þá verði hægt að ganga svo til samtímis frá þeim reglugerðum sem síðan þyrftu að fylgja nýjum lögum um uppboðsmarkaði og reglugerðunum um vigtun og löndun sjávarafla.“

Spurning mín til hæstv. ráðherra er hvort þær reglugerðir sem fylgja þessum lögum séu nánast tilbúnar og hvort við í sjávarútvegsnefnd getum átt von á því að þær komi þar inn. Eins og bent hefur verið á hér í umræðunni er lagaramminn sem verið er að sníða tiltölulega einfaldur og kannski eru ekki miklar breytingar á honum frá fyrri lögum. Hins vegar er verið að leggja meiri þunga á það að reglugerðir um þetta mál muni koma. Ég held að full ástæða væri fyrir okkur í sjávarútvegsnefnd að reyna að fá að sjá þær reglugerðir á sama tíma og við fjöllum um frumvarpið.

Í svari við sömu fyrirspurn um fiskmarkaði sagði hæstv. ráðherra að mikið samstarf hefði verið haft við fiskmarkaðina á undanförnum árum og að ráðuneytismönnum væru mjög vel ljósar áherslur fiskmarkaðsmanna og hugmyndir í þeim efnum hvað þyrfti að gera til að breyta lögunum. Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Það verður örugglega talað við þá áður en frá þessu verður gengið í endanlegu formi af hálfu ráðuneytisins.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðuneytið hafi haft mikið og gott samráð við fiskmarkaðsmenn vikurnar áður en þetta frumvarp var lagt fram eins og boðað var í svarinu á sínum tíma. Það skiptir miklu máli núna þegar við endurskoðum þessi lög að vel takist til. Lögin sem nú gilda eru orðin allt of gömul og við verðum að gera ráð fyrir því þegar við förum í gegnum þetta að lögin sem verið er að setja núna nái yfir þá þróun sem menn sjá fram undan og þá þróun sem orðið hefur frá því að fiskmarkaðirnir hófu starfsemi.

Eins og bent hefur verið á vantar í þessi lög núna allar heimildir til þess að fiskmarkaðir geti falið einum aðila eins og Íslandsmarkaði að framkvæma fyrir sig uppboð. Það er nú það sem gerist í dag. Það vantar að mínu viti einhverjar reglur inn í lagarammann um ábyrgðir og hvernig með skuli fara og að hægt sé að fela einum miðlægum aðila eins og Íslandsmarkaði að innheimta viðskiptakröfur, halda utan um ábyrgðir og greiðslutryggingar. Í þessum lögum, eins og áður hefur verið bent á, er ekki gert ráð fyrir því að uppboðshaldari geti verið miðlægur og haldið utan um eitt uppboð fyrir allt landið eins og þó er verið að gera að hluta til í dag.

Að endingu vil ég segja, frú forseti, að hér erum við eingöngu að ræða þetta við 1. umr. og málið á eftir að fara til sjávarútvegsnefndar. Ég ætla ekki að eyða lengri tíma í að fara yfir efnisatriði frumvarpsins en tel þó að talsvert mikil vinna sé eftir í því að gera þetta frumvarp að ásættanlegum lögum fyrir starfsemi fiskmarkaða á Íslandi. Ég vonast til að við getum átt gott samstarf um það, sjávarútvegsnefnd og sjávarútvegsráðherra.