131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[16:41]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að enginn misskilningur sé uppi um það að ég tel að ramminn, lagaramminn eins og hann þarf að vera um starfsemi fiskmarkaða, þurfi að vera gleggri en hér er sett fram. Auðvitað þurfum við alltaf að vera með reglugerðasmíð í kringum slíka lagasetningu, en svona grundvallaratriði starfseminnar og þau lög sem hún þarf að starfa eftir — við eigum að reyna eins og við getum að koma þeim fyrir í lögunum sjálfum frekar en að gera það í auknum mæli í reglugerðum eins og kannski er verið að gera á mörgum stöðum.

Ég óttast ekki að það takist ekki ágætissamstarf í sjávarútvegsnefnd við að fara yfir þetta mál og auðvitað á eftir að kalla til umsagnir um málið frá öllum þeim sem koma að málinu. Eins þykist ég vita að hægt verði að kalla til fundar hagsmunaaðila í þessari grein. Hér erum við ekki að ræða kannski nein pólitísk álitaefni, heldur þarf að reyna að sníða þessari starfsemi lög sem hamla henni ekki, hvorki þróun né starfseminni eins og hún þarf að vera til að geta skilað öllum þeim aðilum sem byggja allt sitt á þessu, hvort sem það eru fiskverkendur eða útgerðarmenn sem selja fisk á markaði. Síðan gætum við náttúrlega tekið langar og miklar umræður um hve lítið magn er selt á þessum mörkuðum af heildarafla á Íslandsmiðum. Ég ætla ekki að hætta mér út í það þegar ég sé að 20 sekúndur eru eftir af seinna andsvari mínu.

Ég held að við getum í góðri sátt sniðið þessari starfsemi lagaramma við hæfi og þyrftum helst að gera það á þessu þingi til að bæta þó þau lög sem fyrir hendi eru.