131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 2.

[15:10]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er alls ekki sáttur við þessi svör. Mér fannst hæstv. samgönguráðherra ekki svara því beint hvort ríkisstjórnin hygðist grípa til ráðstafana svo að lækka mætti þessi gjöld. Það er í sjálfu sér ekki mjög flókin eða stórkostleg aðgerð að breyta lögum um virðisaukaskatt þannig að þessi skattur sem innheimtur er fyrir notkun samgöngumannvirkis verði afnuminn. Það þarf ekki annað en að bæta við einni lítilli setningu við eina grein laganna um virðisaukaskatt.

Við í Frjálslynda flokknum höfum liggjandi í þinginu frumvarp um slíka lagabreytingu og ég hefði glaðst meira við það að heyra frá hæstv. samgönguráðherra, gjarnan þá eftir samráð við hæstv. fjármálaráðherra sem einnig er í salnum, einhvers konar vilyrði fyrir því að þessum lögum yrði breytt. Það væri hægur vandi að gera það fyrir þinglok í vor þannig að þessi breyting gæti tekið gildi þann 1. janúar nk. Það ætti ekki að vera mikið mál.