131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 3.

[15:12]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra fer nú um Norðurland með áltrúboðið sitt. Ég hélt reyndar að hæstv. ráðherra mundi hafa hægt um sig þangað til sér fyrir endann á framkvæmdum fyrir austan því fyrir utan bæði náttúruspjöllin þar og gífurleg félagsleg undirboð á vinnumarkaði með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og hágengi krónunnar sem kemur af þessum stóriðjuframkvæmdum og er að ryðja burtu öðru atvinnulífi hélt ég að ráðherra mundi hafa hægt um sig meðan þetta væri þá að komast í höfn. En nú eru Norðlendingar spurðir hvort þeir séu ekki til í að fórna náttúruperlum sínum, jökulvötnum og fossum, fyrir álver í sinni heimabyggð eða hjá nágrönnunum. Ekki kemur fram í spurningunum hvort bara Akureyringar og Húsvíkingar hafi verið spurðir eða hvort héraðið allt hafi verið spurt.

Ég vil því spyrja: Hvers vegna valdi ráðherrann að spyrja þessara spurninga frekar en annarra af vettvangi iðnaðarráðherrans? Hvernig hefði t.d. verið að spyrja: Ertu hrifinn eða ekki hrifinn af nýju raforkulögunum sem ráðherrann var að innleiða? Eða kannski: Ertu ánægður eða óánægður með að fá að borga núna margfalt meira fyrir rafmagnið eftir að það var markaðsvætt? Það er þetta sem brennur á fólkinu. Um þetta hefði verið nær að spyrja að mínu mati, herra forseti.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem vex hvað hraðast. Miklar vonir eru bundnar við hana en hana sárvantar fjármagn. Hvers vegna var ekki spurt: Hvort viltu heldur milljarð til að byggja upp ferðaþjónustu á Norðurlandi eða milljarð til að byggja upp álver? Það hefði verið raunverulegt val. Ég leyfi mér því að spyrja ráðherrann: Hver tók ákvörðun um þessa skoðanakönnun? Hver valdi þessar spurningar? Hvað kosta þessar skoðanakannanir og hver borgar? Hversu mikið fjármagn hefur ráðherrann til ráðstöfunar til svona nokkurs, álbræðsluáróðurs, eins og að gera skoðanakönnun um landið?