131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 3.

[15:14]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að þessi skoðanakönnun fer mikið í taugarnar á hv. þingmanni og það er eðlilegt vegna þess að Norðlendingar vilja fá álver og það er ekki hv. þingmanni að skapi. Hann verður bara að sætta sig við að það er mikill áhugi á því á Norðurlandi að þar rísi álver. Þegar hv. þingmaður lætur að því liggja að ég sé að bjóða upp á milljarð til að byggja álver er það mikill misskilningur. Það stendur ekki til að ríkisvaldið geri það og það er engin ástæða til þess vegna þess að það eru mörg fyrirtæki í heiminum sem hafa áhuga á því að byggja álver á Íslandi. Það eru margar ástæður fyrir því sem ég get farið yfir frekar þegar ég hef meiri tíma til.

Að sjálfsögðu er það sú sem hér stendur sem tók þá ákvörðun að fara út í þessa könnun. Fólk er spurt á þremur svæðum á Norðurlandi, í Skagafirði, á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu og Húsavík og Þingeyjarsýslu, hvort það vilji fá álver. Annars vegar er það spurt hvort það vilji fá það í sinni heimabyggð og hins vegar er spurt hvort það hafi áhuga á að fá álver annars staðar á Norðurlandi en í heimabyggð viðkomandi. Ég er búin að gefa opinberlega upp hver svörin voru á tveimur svæðum en þriðji fundurinn er í kvöld í Skagafirði þannig að ég ætla ekki að fara yfir það hér hvað kom út úr þeirri spurningu.

Þetta er allt saman unnið af fagfyrirtæki sem er IMG Gallup. Spurningarnar eru faglega settar fram og öll vinna er í samræmi við það sem almennt gerist þegar farið er af stað með vinnu sem þessa. Ég held að hv. þingmaður sé á einhverjum villigötum með að vera að vekja athygli á þessu hér því að hlutverk mitt er að þjóna fólkinu. Í þessu tilfelli er ég að fá fram svör um það hvernig fólk lítur á þetta heima fyrir.