131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 3.

[15:16]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er ljóst hver forgangsröðun ráðherrans er. Ég hefði talið nær að spyrja um raforkuna, hvort fólk sé ánægt með að borga svona hátt raforkuverð. Það finnst ráðherranum ekki. (Gripið fram í: … Jón Bjarnason.) Ráðherrann svarar ekki hversu mikið þessar skoðanakannanir kosta, hver borgar þær eða hversu mikið fjármagn ráðherrann hefur til að ráðstafa í svona spurningaleik. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál.

Það væri líka fróðlegt að fá að vita hjá ráðherranum hvort hún sé að svara bæði Norðurorku og Skagafjarðarveitum sem hafa lagt inn erindi og spurt hvort þeir megi leysa til sín aftur hlut Rariks á svæðinu, hvort Skagafjarðarveitur fái aftur að leysa til sín Rafveitu Sauðárkróks. Ætlar hún að svara þessu erindi sem bæði Skagafjarðarveitur og Rarik hafa sent henni með ósk um að fá að leysa þessa hluti aftur til sín? Ef það kæmi í ljós að skoðanakönnun meðal heimamanna mælti eindregið með því, yrði hún þá ekki hiklaust við þeim óskum?