131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 4.

[15:20]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það líður nú að vori með betri tíð og blómum í haga og þá rennur enn eina ferðina upp ný síldarvertíð. Stærsti fiskstofn í norðaustanverðu Atlantshafi er nú á leið frá ströndum Noregs í vesturátt, nálgast íslensku lögsöguna óðfluga og það líða ekki margar vikur þangað til ný síldarvertíð hefst. Í vetur höfum við fengið mjög jákvæðar fréttir frá frændum okkar, Norðmönnum, um það að þessi stofn sé í örum vexti. Til að mynda bárust fréttir af því rétt fyrir jól að stærsti árgangur sem mælst hefði frá því að mælingar hófust fyrir 50 árum, þ.e. 2002-árgangur, væri fundinn.

Við höfum einnig heyrt af því að hafið hér í norðaustanverðu Atlantshafi fari mjög hlýnandi og nú síðast um helgina var viðtal við Rögnvald Hannesson, prófessor við Viðskiptaháskólann í Björgvin í Noregi, þar sem hann benti réttilega á það að þetta mundi sennilega allt leiða til þess að göngumynstur til að mynda síldarinnar mundi breytast. Það eru miklu meiri líkur en minni til þess að hún taki upp sitt gamla göngumynstur samfara stækkandi stofnstærð og hlýnandi hafi og fari að færa sig aftur á gömlu sumarsvæðin við norðaustanvert Ísland og undan Norðurlandi.

Mér datt því í hug, virðulegi forseti, að bera þá spurningu upp við hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort uppi væru einhverjar áætlanir um að leggja aukna áherslu á rannsóknir á norsk-íslenska síldarstofninum í vor og í sumar í ljósi þess að stofninn er í örum vexti. Það er alveg augljóst mál að það stefnir jafnvel í síldarstríð við Norðmenn — og hugsanlega einnig við Evrópusambandið og fleiri þjóðir — vegna misklíðar varðandi skiptingu á þessum stofni. Samningaviðræður um skiptingu á stofninum eru mjög erfiðar en eitt af þeim grundvallargögnum sem notuð eru í slíkum samningaviðræðum eru, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra náttúrlega veit, gögn um útbreiðslu og göngu síldarinnar.